Með tilkomu laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna (nr. 86/2021) hefur ríki og Reykjavíkurborg unnið markvisst að því að efla samstarf allra tengiliða sem vinna með börnum og ungmennum í viðkvæmri stöðu. Fimmtudaginn 16. janúar var haldin vinnustofa um börn í viðkvæmri stöðu á vegum stýrihóps lögreglunnar, Norðurmiðstöðvar, framhaldsskóla í hverfi Norðurmiðstöðvar (MS, FÁ og Versló), heilsugæslunnar, barnaverndar og íþróttafélaga í hverfinu. MS átti sína fulltrúa á vinnustofunni, bæði starfsfólk í stoðþjónustu sem sat vinnustofuna, og nemendur sem tóku þátt í pallborðsumræðum um hatursorðræðu. Við lok vinnustofunnar var svo flutt skemmtiatriði af nemanda úr MS.
Á vinnustofunni, sem fór fram í Víkingsheimilinu Safamýri, fjölluðu fulltrúar lögreglu höfuðborgarsvæðisins um tölfræði um stöðu barna og ungmenna auk verkferla er varða vopnaburð. Í umræðum á borðum komu saman aðilar úr ólíkum áttum sem ræddu um leiðir til að efla og þróa samvinnu sín á milli vegna barna í viðkvæmri stöðu.
Eftir hádegi fjallaði Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir verkefnastýra ofbeldis- og kynheilbrigðismála hjá Barnaheillum um hatursorðræðu. Ungmenni úr skólum í hverfinu deildu í kjölfarið sinni upplifun af hatursorðræðu og þær aðgerðir sem fullorðna fólkið geti gripið til í baráttu við slíkt. Þær Anya María Mosty og Sigurbjörg Árnadóttir voru glæsilegir fulltrúar MS í pallborðsumræðunum.
Ungmennin tóku svo þátt í umræðum á borðum þar sem dýpra var viðbrögð við hatursorðræðu. Við lok dagskrár stigu á stokk ungmenni úr hverfinu, þar á meðal Ketill Ágústsson nemandi í MS og ármaður SMS, sem flutti tvö frumsamin lög. Annað lagið, Rætur, fjallaði um barn í viðkvæmri stöðu og tengdist því þema dagsins beint:
„Það þarf að vernda börnin áður en æskan þeirra skekkist,
mörg hundruð sögur um það þekkist.“

