LÍFF3BL05 - Boðskipti lífvera

Þema áfangans er samskipti innan og á milli lífvera í víðum skilningi. Hér verða kynntar til sögunnar ýmsar lífverur sem hafa misflókið boðskiptakerfi. Fyrst eru samskipti og boðskipti frumna, einfrumunga og plantna skoðuð lítillega. Svo beinist athyglin að manninum. Farið verður í byggingu og starfsemi tveggja helstu boðflutningskerfa mannslíkamans, innkirtlakerfi og taugakerfi, þ.m.t skynfæri. Fjallað verður um heilbrigða starfsemi og samvægishugtakið, en einnig um frávik frá eðlilegri líkamsstarfsemi og áhrif t.d. vímuefna á boðskiptakerfin. Eiturefnavistfræði er tekin fyrir í áfanganum og athugað hvernig og hvaða mengunarþættir í umhverfinu geta haft áhrif á boðkerfi lífvera og á vistkerfi. Til dæmis eru lífmögnun og samverkun efna reifuð.

Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa aflað sér þekkingar og skilnings á:

  • hugtökum námsefnisins
  • hvernig frumur senda boð til að samhæfa lífsstörf
  • mismunandi leiðum lífvera til að hafa samskipti sín á milli
  • helstu boðflutningskerfum mannslíkamans
  • hvernig boðflutningskerfi stuðla að viðhaldi samvægis í líkamanum
  • eðli taugaboða ásamt byggingu og starfsemi taugakerfis
  • mismunandi gerðum skynfæra
  • eðli hormóna og byggingu og starfsemi innkirtlakerfis
  • sjúkdómum af völdum röskunar í boðleiðum líkamans
  • áhrifum eiturefna (þ.m.t. vímuefna) á boðskipti í líkamanum
  • áhrifum eiturefna á lífverur og á vistkerfi

Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • beita hugtökum námsefnisins og tjá sig skriflega og munnlega um það
  • vinna sjálfstætt við verklegar æfingar og geta útskýrt niðurstöður
  • draga ályktanir af niðurstöðum verklegra æfinga og beita til þess þekkingu á viðfangsefninu
  • geta greint frá frávikum í eðlilegri líkamsstarfsemi líffærakerfa sem snúa að boðskiptum líkamans
  • nýta upplýsingatækni við öflun upplýsinga og heimilda við verkefnavinnu
  • lesa upplýsingar úr grafískri framsetningu
  • geta unnið sjálfstætt að úrlausnum verkefna

Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • tengja undirstöðuþekkingu á samvægi og á boðkerfum líkamans við daglegt líf
  • geta dregið ályktanir út frá upplýsingum sem tengjast viðfangsefni áfangans
  • afla sér upplýsinga og frekari þekkingar varðandi viðfangsefnið
  • taka upplýstar ákvarðanir varðandi notkun vímuefna og eiturefna m.t.t. lifandi náttúru og eigin líkama
  • útskýra, greina og draga ályktun af niðurstöðum verklegra æfinga
  • takast á við frekara nám í náttúrufræðum