LÍFF3LO05 - Lokaverkefni í líffræði

Áfanginn tekur mið af heimildaöflun og rannsóknarvinnu. Lögð er áhersla á að nemandi samþætti þá þekkingu og færni sem hann hefur tileinkað sér í undangengnum áföngum. Meginmarkmið áfangans er að brjóta niður veggi milli fyrri áfanga, kafa dýpra en áður og skoða leiðir til að afla frekari þekkingar á viðfangsefnum líffræðinnar með heimildarýni og rannsókn. Hver nemandi vinnur stutta heimildaritgerð. Nemendur framkvæma síðan rannsókn og vinna ítarlega rannsóknarskýrslu og veggspjald upp úr rannsókninni. Þeir kynna rannsókn sína fyrir samnemendum með fyrirlestri. Einnig kynna þeir veggspjaldið á ráðstefnu í skólanum. Nemendur velja efnisþætti í samráði við kennara hverju sinni. Sjálfstæð vinnubrögð nemenda eru höfð í fyrirrúmi með leiðsögn frá kennara.

Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa aflað sér þekkingar og skilnings á:

  • sérhæfðum sviðum líffræðinnar
  • sérhæfðum fagorðaforða á íslenskri og enskri tungu sem nýtist til undirbúnings fyrir frekara nám
  • rannsóknaraðferðum og -vinnu fræðigreinarinnar líffræði
  • meðferð heimilda

Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • skipuleggja og framkvæma rannsóknarverkefni
  • safna upplýsingum, vinna úr þeim, túlka niðurstöður og miðla til annarra
  • setja fram og túlka myndir og gröf
  • nýta sér upplýsinga- og samskiptatækni með gagnrýnum hætti
  • nýta sér rannsóknartæki og hugbúnað í tengslum við sérhæfð verkefni eins og á við
  • hagnýta sér tengsl milli stærðfræði og raungreina til úrlausnar verkefna
  • tjá skoðanir sínar og verkefni á skýran hátt, draga ályktanir og rökstyðja í fræðilegu samhengi
  • tileinka sér heiðarleg vinnubrögð við meðferð heimilda

Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • auka skilning sinn á líffræðilegum viðfangsefnum
  • gera raunhæfar áætlanir um ritgerðarskrif og rannsóknarvinnu
  • útskýra, greina, draga ályktun af og miðla niðurstöðum rannsóknar
  • draga saman upplýsingar, meta áreiðanleika þeirra og miðla þeim áfram með eigin orðum
  • taka þátt í og stjórna upplýstri umræðu um málefni er snerta vísindi, tækni og samfélag
  • taka þátt í vísindaráðstefnu þar sem skipst er á skoðunum eftir kynningar á rannsóknarverkefnum
  • taka ábyrgð á eigin námi
  • finna áreiðanlegar heimildir, lesa þær og draga saman upplýsingar úr þeim með því að skrifa eigin texta