JARÐ2AJ05( - Jarðfræði Íslands, grunnáfangi í jarðvísindum

Áfanginn er grunnáfangi í brautarkjarna náttúrufræðibrautar og fjallar um uppruna alheims, uppruna og gerð sólkerfisins, innri gerð jarðar, flekarek, innræn öfl og orsakir eldvirkni á jörðinni og Íslandi, helstu bergtegundir jarðskorpunnar, landmótun útrænna afla, flokkun jarðhitasvæða og orkunýtingu ásamt jarðfræðilegri sérstöðu Íslands. Samtímis því eru nemendur þjálfaðir í þeim vinnubrögðum sem notuð eru við kennslu í þessari grein. Nemendur vinna ýmist sjálfstætt eða saman í hópum þar sem áhersla er lögð á ábyrgð nemandans á eigin námsframvindu.

Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • jarðvísindum sem vísindagrein
  • uppruna jarðar, sólkerfisins og alheimsins
  • innri gerð jarðar og mismunandi gerð jarðskorpufleka og flekamarka
  • þeim tegundum flekamarka sem koma fyrir á Íslandi
  • hvar helst má vænta eldgosa á Íslandi og almennt á jörðinni
  • hvað einkennir eldstöðvakerfi og virkni tengt því
  • hvaða kvikugerðir koma upp í eldgosum á jörðinni og Íslandi og hvað stjórnar því
  • nokkrum storkubergstegundum, myndun þeirra og storkubergsmyndunum
  • hvar helst má vænta jarðskjálfta á Íslandi og almennt á jörðinni
  • hvernig jarðvarminn og vatnsaflið er nýtt til orkuöflunar á Íslandi
  • landmótun útrænna afla á Íslandi

Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • greina muninn á helstu fyrirbærum alheims og geta útskýrt þróun alheims frá Miklahvelli
  • greina á milli helstu bergtegunda jarðskorpunnar
  • greina á milli innrænna og útrænna afla við mótun landsins
  • greina milli mismunandi tegunda flekamarka á jörðinni og áhrif þess á eldvirkni
  • greina muninn á innri og ytri reikistjörnum sólkerfisins í uppbyggingu sólkerfisins

Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • skilja umfjöllun fjölmiðla um atburði sem tengjast jarðfræði og náttúru
  • geta lesið í umhverfi sitt og bera virðingu fyrir náttúrunni
  • meta mismunandi verðmæti jarðfræðifyrirbæra
  • tengja undirstöðuþætti jarðfræðinnar við umhverfi sitt og daglegt líf

Nánari upplýsingar á námskrá.is