FRAN1GR05 - Grunnáfangi

Um er að ræða byrjunarnám og er megináhersla lögð á að nemendur tileinki sér undirstöðuatriði tungumálsins. Frá upphafi fá nemendur þjálfun í færniþáttunum fjórum: tali, hlustun, ritun og lesskilningi. Áhersla er lögð á framburð, grunnatriði málnotkunar og uppbyggingu orðaforða tungumálsins. Nemendur kynnast menningu, siðum og staðháttum viðkomandi málsvæða. Í lok ársins eiga nemendur að hafa náð kunnáttu upp á stig A1 samkvæmt Evrópska tungumálarammanum.

Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • þeim orðaforða sem nauðsynlegur er til að ná leikni- og hæfnimarkmiðum áfangans
  • helstu grundvallarþáttum málkerfis viðkomandi tungumáls s.s. framburði, tónfalli og einfaldri setningaskipan
  • mannlífi, menningu og siðum í löndum þar sem viðkomandi tungumál er talað sem móðurmál eða fyrsta mál og þekkja samskiptavenjur
  • einföldum samskiptum og tjáningu í mæltu og rituðu máli


Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • skilja talað mál um kunnugleg efni þegar talað er skýrt, t.d. einfaldar leiðbeiningar og fyrirmæli, uppástungur og stuttar frásagnir og skilið helstu kveðjur og kurteisisávörp
  • kynna sjálfa sig og aðra, segja frá fjölskyldu sinni og vinum, daglegum athöfnum og frístundum (skólanum, íþróttum), það sem þau elska og mislíkar
  • lesa sér til skilnings stutta texta/ítarefni með hjálp orðskýringa/orðabóka
  • geta skrifað stuttan, einfaldan texta um sjálfan sig og sitt nánasta umhverfi, einföld persónuleg bréf og póstkort, skilaboð, boðskort, leiðarlýsingar og samtöl
  • nýta sér ýmis hjálpargögn í tungumálanáminu


Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • öðlast færni til að tjá sig munnlega og skriflega í stuttum setningum á frönsku um sjálfa sig og sitt nánasta umhverfi
  • öðlast nokkra þekkingu á frönskumælandi löndum og fengið innsýn í franskan menningarheim og siðvenjur
  • tileinka sér undirstöðuatriði framburðar á frönsku m.a. með því að nýta sér hlustunarefni
  • tileinka sér undirstöðuatriði franskrar málfræði

Nánari upplýsingar á námskrá.is