Á hverjum tíma skal vera starfandi áfallateymi í skólanum sem þekkir eftirfarandi áætlun og er tilbúið að vinna samkvæmt henni þegar þörf er á.
Í áfallateymi MS sitja rektor, konrektor, kennslustjóri, forstöðumaður námsráðgjafar, skrifstofustjóri (eftir atvikum), trúnaðarmaður kennara (eftir atvikum). Eftir atvikum er leitað til hjúkrunarfræðings sem starfar í skólanum eða ytri aðila eins og áfallateymis hjá Rauðakrossi Íslands, Heilsuverndar eða sálgæsluaðila.
Með hugtakinu áfall er átt við alvarlegt mótlæti eða erfiða reynslu sem einstaklingur verður fyrir. Dæmi um aðstæður og atvik sem geta leitt til þess að áfallaáætlun sé sett í gang eru:
- Alvarleg veikindi
- Slys
- Dauðsfall
- Ógnvekjandi aðstæður
- Aðrar aðstæður sem leitt geta til ótta, streitu eða annarra slíkra viðbragða
Aðili sem fær upplýsingar um alvarleg veikindi, slys eða dauðsfall sem tengist skólastarfinu skal koma þeim til rektors eða konrektors. Stjórnendur leggja mat á það hverju sinni hvernig beri að bregðast við.
Markmið áfallateymis MS er að tryggja að sá sem fyrir áfalli verður fái strax þá aðstoð og aðhlynningu sem nauðsynleg er.
Fyrstu viðbrögð áfallateymis
- Teymið hittist stuttlega, fer yfir fyrirliggjandi staðreyndir málsins og aflar sér strax áreiðanlegra viðbótarupplýsinga sé eitthvað óljóst.
- Teymið gerir áætlun um næstu skref og skiptir með sér verkum.
- Eftirtalin atriði þarf að hafa í huga þegar næstu skref eru ákveðin:
- Hverjir standa næst einstaklingi sem þarf að sinna sérstaklega?
- Hvernig verður samskiptum við aðstandendur háttað?
- Hvernig verður upplýsingagjöf innan starfsmannahópsins háttað?
- Hvernig verður upplýsingagjöf til nemenda háttað?
- Hvernig verður upplýsingagjöf háttað á opinberum vettvangi?
- Þarf að kalla til ytri aðila (t.d. prest, sálfræðing eða aðra sérfræðinga)?
- Teymið hittist aftur í lok dags, fer yfir það hvernig dagurinn hefur gengið og hver næstu skref eru í málinu.
Alvarleg veikindi eða slys í skólanum
- Sá starfsmaður sem fyrstur kemur að atviki veitir fyrstu hjálp, hringir í 112 og kallar eftir aðstoð innanhúss.
- Þegar fleiri starfsmenn eru komnir að atviki tekur einn starfsmaður að sér stjórn á vettvangi með afgerandi hætti.
- Meðlimir áfallateymis leita staðfestingar á því að hringt hafi verið í 112.
- Haft er samband við aðstandendur viðkomandi einstaklings til að tilkynna um atburðinn.
- Skrá ber niður hvaða nemendur og starfsmenn urðu vitni að því sem gerðist til að tryggja að þeir fái viðeigandi aðstoð í kjölfarið, en ekki síður til að skjalfesta hverjir geta vitnað um atburðinn.
- Komi til þess að kalla þurfi til sjúkrabíl fylgir starfsmaður hinum veika/slasaða ef ekki næst í aðstandendur.
- Starfsmönnum og nemendum er tilkynnt um atburðinn eins fljótt og auðið er.
- Frekari vinnsla málsins er ákveðin í samráði við hinn veika/slasaða og/eða aðstandendur hans.
Dauðsfall í skólanum
- Sá starfsmaður sem fyrstur kemur að atviki veitir fyrstu hjálp, hringir í 112 og kallar eftir aðstoð innanhúss.
- Þegar fleiri starfsmenn eru komnir að atviki tekur einn starfsmaður að sér stjórn á vettvangi með afgerandi hætti.
- Meðlimir áfallateymis leita staðfestingar á því að hringt hafi verið í 112.
- Samráð er haft við lögreglu um það hvernig tilkynningu til aðstandenda verður háttað.
- Kallað er eftir tafarlausri aðstoð sálgæsluaðila eða annarra sérfræðinga sem talin er þörf á.
- Skrá ber niður hvaða nemendur og starfsmenn urðu vitni að því sem gerðist til að tryggja að þeir fái viðeigandi aðstoð í kjölfarið, en ekki síður til að skjalfesta hverjir geta vitnað um atburðinn.
- Tryggja skal að enginn sem varð vitni að atvikinu fari úr húsi án þess að hafa fengið viðeigandi aðstoð og upplýsingar um það hvaða aðstoð muni bjóðast í framhaldinu. Huga skal sérstaklega að því í hvaða aðstæður viðkomandi fer þegar hann yfirgefur húsið, þ.e. hvort hann muni keyra einn eða vera einn næstu klukkustundirnar.
- Öðrum starfsmönnum og nemendum er tilkynnt um atburðinn eins fljótt og auðið er.
- Þegar allir aðilar hafa verið upplýstir er fáni dreginn í hálfa stöng (ef það er talið viðeigandi).
- Áfallateymi sér til þess að aðstandendum sé send samúðarkveðja og blómvöndur. Jafnframt er boðin aðstoð skólans við útfararundirbúning og útför eftir því sem við á.
Dauðsfall starfsmanns eða nemanda utan skólans
- Fengin er staðfesting á andláti og upplýsinga leitað um aðdraganda þess.
- Fulltrúi áfallateymis hefur samband við aðstandendur varðandi framhaldsvinnslu málsins.
- Starfsmönnum, og eftir atvikum einnig nemendum, er tilkynnt strax um andlátið.
- Kallað er eftir aðstoð sálgæsluaðila eða annarra sérfræðinga sem talin er þörf á.
- Þegar allir viðkomandi aðilar hafa verið upplýstir er fáni dreginn í hálfa stöng.
- Áfallateymi sér til þess að aðstandendum sé send samúðarkveðja og blómvöndur. Jafnframt er boðin aðstoð skólans við útfararundirbúning og útför eftir því sem við á.
Stuðningur eftir áfall
- Venjubundið skólastarf sefar óttann og kvíðann sem fylgir áföllum. Mikilvægt er að starfsmenn skólans séu eins eðlilegir og hlýlegir og þeim er unnt. Tillitssemi og virðing felst m.a. í því að staldra ekki of lengi við áföllin heldur halda áfram lífsgöngunni þótt sorgin sé til staðar.
- Hlúa þarf að nemendum. Nemendum gefinn kostur á að vinna með tilfinningar sínar. Boðið upp á einstaklingsviðtöl. Nauðsynlegt getur reynst að óska eftir aðstoð ytri aðila til að álag verði ekki of mikið á starfsfólk skólans, t.d. sálgæsluaðila, áfallateymi við heilsugæslustöðvar o.s.frv.
- Hafi nemandi eða starfsmaður látist er hins látna minnst með sameiginlegri athöfn í umsjá rektors eða prests. Skrifstofustjóri sér um að minningabók liggi frammi sem og mynd af viðkomandi. Húsvörður flaggar í hálfa stöng á jarðarfarardag.
- Hafa samband við aðstandendur sem hafa orðið fyrir missi og votta samúð. Minningargreinar, kransar og blóm frá nemendum/skólanum.
- Haldið áfram næstu vikur og mánuði að hlúa að nemendum og starfsfólki skólans. Mikilvægt er að skoða hvaða sveigjanleika nemendur þurfa og hafa samráð við kennara um slíkt. Gefa skal gaum að áfallastreitu meðal nemenda og starfsmanna skólans. Boðið upp á hópviðtöl eða einstaklingsviðtöl ef þörf er talin. Áfallateymi metur hvort þörf sé á viðtölum og þá með hvaða hætti þau eru útfærð.