Í reglugerð um starfslið og skipulag framhaldsskóla nr. 1100/2007 segir m.a. ;
Kennarar annast, taka þátt í og bera ábyrgð á eftirfarandi:
- kennslu, undirbúningi kennslu, námsmati og faglegu samstarfi í kennslugreinum sínum, skv. markmiðum skóla- og aðalnámskrár,
- gerð kennsluáætlana og prófa í samstarfi við aðra kennara,
- að viðhalda faglegri hæfni sinni og huga að tengslum við aðrar námsgreinar,
- skráningu fjarvista nemenda sinna,
- öðru samstarfi vegna starfs síns skv. markmiðum skóla og aðalnámskrár,
- almennri upplýsingagjöf og upplýsingagjöf vegna sjálfsmats skóla og skólanámskrár,
- að hafa viðtalstíma fyrir nemendur sína og forráðamenn þeirra,
- að sitja a.m.k. einn fund á ári/önn með forráðamönnum ólögráða nemenda sinna.
Kennari situr kennarafundi sem boðaðir eru skv. reglugerð um kennarafundi.
Siðareglur kennara
(sótt af vef Kennarasambands Íslands 23.8.2017)
Kennari:
- Menntar nemendur.
- Eflir með nemendum gagnrýna hugsun, virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, umhverfi og menningu.
- Sýnir nemendum virðingu, áhuga og umhyggju.
- Skapar góðan starfsanda og hvetjandi námsumhverfi.
- Hefur jafnrétti að leiðarljósi.
- Vinnur gegn fordómum, einelti og öðru ranglæti sem nemendur verða fyrir.
- Kemur vel fram við nemendur og forráðamenn og virðir rétt þeirra.
- Gætir trúnaðar við nemendur og forráðamenn og þagmælsku um einkamál þeirra sem hann fær vitneskju um í starfi sínu.
- Viðheldur starfshæfni sinni og eykur hana.
- Vinnur með samstarfsfólki á faglegan hátt.
- Sýnir öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu.
- Gætir heiðurs og hagsmuna stéttar sinnar.
Síðast uppfært: 29.08.2017