Hugtakið örverur er skilgreint og helstu hópar lífvera sem falla undir það skoðaðir. Megináhersla verður þó á bakteríur og veirur. Fjallað verður um þróun lífs frá dreifkjarna lífverum til flóknari lífvera. Þá verður skoðað hlutverk örvera í vistkerfum og mikilvægi baktería í daglegu lífi mannsins. Kynntir verða mismunandi hópar sjúkdómsvaldandi örvera, greining þeirra og meðferð. Farið verður í grunnþætti ónæmiskerfis mannsins og viðbrögð þess við sýkingum. Tekið verður til umræðu hættan sem að okkur steðjar af sívaxandi fjölda sýklalyfjaónæmra baktería og kannaðar leiðir sem menn sjá helst fyrir sér að geti leitt til nýrrar kynslóðar sýklalyfja. Ónæmisaðgerðir, s.s. bólusetningar, verða kynntar. Að lokum verður komið inn á hagnýtingu örvera t.d. í líftækni, erfðatækni og öðrum iðnaði.
Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa aflað sér þekkingar og skilnings á:
- hugtökum námsefnisins
- stöðu örvera í lífheiminum
- flokkun og gerð örvera
- einkennum og lifnaðarháttum helstu örveruflokka
- mikilvægi örvera í vistkerfum og þýðingu í daglegu lífi
- sjúkdómsvaldandi örverum
- viðbrögðum ónæmiskerfis mannsins við sjúkdómsvaldandi örverum
- sýklalyfjaónæmi
- hagnýtri notkun örvera í iðnaði og líftækni
Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- beita hugtökum námsefnis
- leggja mat á mikilvægi örvera í lífheiminum
- sýna frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð
- draga ályktanir af niðurstöðum verklegra æfinga og beita til þess þekkingu á viðfangsefninu
- tjá sig um námsefnið bæði munnlega og skriflega
- nýta upplýsingatækni við öflun heimilda við verkefnavinnu
- vinna sjálfstæð kynningarverkefni úr námsefninu
- setja fram og lesa upplýsingar úr myndrænni framsetningu
Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- tengja undirstöðuþekkingu á örverum við daglegt líf
- draga rökstuddar ályktanir út frá upplýsingum sem tengjast viðfangsefni áfangans
- vinna sjálfstætt að úrlausnum verkefna
- taka upplýsta afstöðu í umræðum sem lúta að viðfangsefni áfangans t.d. gildi bólusetninga, smithættu og hagnýtingu örvera
- afla sér upplýsinga og frekari þekkingar varðandi viðfangsefnið
- takast á við frekara nám í náttúrufræðum