Kolefnisjöfnun Menntaskólans við Sund

Um verkefnið

Menntaskólinn við Sund hefur skuldbundið sig í stefnumótunarskjali til ráðuneytis að kolefnisjafna ferðir á vegum skólans. Kolefnisjöfnunin er í anda menntastefnu skólans þar sem umhverfismálin skipa stóran sess. Í námskrá skólans er umhverfisfræði til dæmis hluti af skyldunáminu, skólinn færir grænt bókhald og er með margháttar aðgerðir í gangi til að draga úr magni úrgangs og orkunotkun og hækka hlutfall endurnýtanlegs sorps. Skólinn er einnig þátttakandi í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri. Kolefnisjöfnunin er eðlilegt framhald á viðleitni skólans til þess að sýna samfélagslega ábyrgð gagnvart þeim vanda sem síaukið magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti hefur á lífsskilyrði á jörðinni okkar.

Umfang verkefnis

Frá og með 1. janúar 2019 verða skipulagðar ferðir á vegum skólans kolefnisjafnaðar. Þetta nær til nemendaferða innanlands þar sem farið er með hópa (rútuferðir, flug) sem og skipulagðra ferða á vegum skólans til útlanda (námsferðir í einstökum áföngum, skólaheimsóknir osfrv.). Kolefnisjöfnunin nær einnig til ferða starfsmanna á skólatíma (innanlands sem og ferðir út fyrir landsteinana) bæði í ferðum á vegum skólans og einnig annarra ferða sem samþykktar eru af skólanum á starfstíma hans.

Starfsfólk MS verður hvatt til þess að kolefnisjafna eigin ferðalög innanlands sem utan, hvort sem um er að ræða flug eða notkun ökutækja. Skólinn mun aðstoða þá sem þess óska við útreikninga á kolefnisjöfnun við þær ferðir.

Framkvæmd

Nemendaferðir

Skyldunám: Nemendaferðir sem eru hluti af skyldunámi í Menntaskólanum við Sund verða kolefnisjafnaðar hvort sem um er að ræða ferðir með langferðabifreiðum eða flugferðir. Við kostnaðarmat á slíkum ferðum verður gert ráð fyrir kolefnisjöfnuninni í áætlunum skólans og skólinn greiðir fyrir kolefnisjöfnunina inn á kolefnisreikning skólans samtímis því sem ferðir eru farnar. Við útreikninga á kostnaði við kolefnisjöfnunina vegna ferða með rútum eða öðrum langferðabílum verður notast við reikniverkstillögur Umhverfisstofnunar en við útreikning á kostnaði vegna flugs verður stuðst við viðurkennda alþjóðlega reiknivél sem stjórnvöld nota við útreikninga á CO2 losun í færslu á Grænu bókahaldi.

Valkvæmar ferðir: Hér er um að ræða ferðir í áföngum sem ekki eru hluti af skyldunáminu (akstur sem og flug) sem og flugferðir sem tengjast sérstökum verkefnum á vegum skólans sem nemendum býðst að taka þátt í. Skólinn reiknar út kolefnisgjaldið við þessar ferðir með sömu aðferðum og áður og innheimtir það hjá þeim sem taka þátt í þessum ferðum.

Ferðir starfsfólks MS

Námsferðir starfsfólks á vegum skólans

Hér er m.a. um að ræða námsferðir kennara og/eða annarra starfsmanna með nemendur innanlands sem utan (flug og/eða bíll). Kolefnisjöfnunin er á kostnað skólans. Skólinn reiknar út kolefnisgjald vegna þátttöku starfsmanna og greiðir það gjald inn á kolefnisreikning skólans.

Hér er einnig um að ræða ferðir starfsfólks sem farnar eru með stuðningi skólans á starfstíma hans. Þetta eru til dæmis ferðir sem styrktar eru af Erasmus, NordPlus og öðrum aðilum vegna funda, námskeiða, vinnuskipta og þátttöku í ráðstefnum svo dæmi séu tekin. Skólinn mun í umsóknum sínum um styrki sækja um fé til að kolefnisjafna þessar ferðir. Fáist það ekki mun skólinn greiða kolefnisjöfnunina annað hvort af reikningi skólans eða af umsýslugjaldi því sem reiknað er inn í styrkupphæðina.

Valkvæmar ferðir starfsfólks: Stefnt er að því að kolefnisspor i valkvæmum hópferðum starfsfólks á starfstíma skóla verð kolefnisjafnaðar og gert sé ráð fyrir þeim kostnaði við skipulag ferðanna.

Önnur kolefnisjöfnun

Hvati til góðra verka: Öll okkar hegðun og allt sem við gerum hefur áhrif á umhverfið. Losun úrgangs og mengun sem fylgir nútíma þjóðfélagi eru þættir sem allur þorri fólks er orðinn meðvitaður um að þurfi að bregðast við. Við sem störfum í Menntaskólanum við Sund þurfum að stíga fram og sýna að umhverfisstefna skólans og aðgerðaáætlun hans eru ekki orðin tóm. Skólinn býður því starfsfólki aðstoð við að reikna út kolefnissporið sem fylgir akstri og öðrum ferðalögum þess vilji starfsfólk MS leggja sín lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn hlýnun jarðar. Starfsfólk sem vill stíga þetta skref verður aðstoðað við útreikninginn og fær ráðleggingar hvaða leiðir séu færar til að tryggja að sú fjárhæð sem fer í kolefnisjöfnunina nýtist sem best (plöntun trjáa, hvaða tegundir skila bestum árangri þar og hvaða aðilar aðrir en Menntaskólinn við Sund og kolefnissjóður hans eru skilvirkastir við kolefnisbindingu).

Frekari hvati fyrir starfsfólk og nemendur til kolefnisjöfnunar: Þegar verkefnið er komið af stað og reynsla er komin á það, sem rædd verður á fundum í skólanum, verða teknar ákvarðanir um næstu skref í þeirri viðleitni okkar að skilja eftir okkur sem minnst kolefnisspor. Unnið verður með kennurum í umhverfisfræði að því að útfæra leiðir til þess að koma vitund og fræðslu um þessi mál á framfæri við nemendur og forráðamenn þeirra.

Kolefnisreikningur skólans

Kolefnisreikningur skólans var stofnaður í Landsbankanum til þess eins að halda utan um kolefnisjöfnunarsjóð skólans. Allar greiðslur úr þessum sjóði fara annað hvort í kaup á plöntum til gróðursetningar eða til skilyrtar greiðslu til þeirra aðila sem vinna að trjárækt eða endurheimt votlendis. Ákvarðanir um úthlutun verða teknar af sérstökum stýrihópi sem í munu sitja fulltrúi kennara, fulltrúi nemenda, fulltrúi foreldra/forráðamanna, fjármálastjóri MS og rektor MS.

Árlega verður gefin út skýrsla um kolefnisjöfnun hvers skólaárs og hvernig þeim fjármunum sem koma inn á þennan reikning verður varið. Fjármálastjóri skólans sér um bókhald vegna þessa.

Skipulagsskrá kolefnissjóðs Menntaskólans við Sund

Skipulagsskrá kolefnissjóðs Menntaskólans við Sund var gefin út 15.1.2020. Í henni er greint frá heiti sjóðsins, umsjónaraðila sjóðsins og hlutverki hans. Fjallað er um meðferð fjármuna sem koma í sjóðinn og hvernig ákvarðanir eru teknar um kolefnisjöfnun á vegum sjóðsins í skipulagsskrá sjóðsins.

Samstarfsaðilar

Þar sem verkefnið tengist beint þátttöku skólans í Grænum skrefum og færslu á grænu bókhaldi er Umhverfisstofnun samstarfs- og samráðsaðili. Verkefnið er einnig hluti af skuldbindingu skólans sem birtist í stefnumótunarskjali hans til ráðuneytis og þar með tengist mennta- og menningarmálaráðuneytið þessu verkefni óbeint. Þegar verkefnið er komið af stað er ljóst að Skógrækt ríkisins og aðilar sem vinna að endurheimt votlendis munu tengjast þessu verkefni okkar. Þetta á einnig við þá aðila sem reka Kolvið.

Síðast uppfært: 03.02.2021