Hlutverk rektors
Í 3. grein reglugerðar um starfslið og skipulag framhaldsskóla segir;
Menntamálaráðherra skipar skólameistara við framhaldsskóla til fimm ára í senn að fengnum tillögum hlutaðeigandi skólanefndar og setur honum erindisbréf, sbr. auglýsingu um erindisbréf skólameistara í framhaldsskólum nr. 453/1997.
Skólameistari skal m.a.:
- bera ábyrgð á starfsemi skólans, menntunar- og uppeldishlutverki, þróunarstarfi innan hans, gerð skólanámskrár og innritun nemenda,
- bera ábyrgð á eignum, fjárreiðum og öðrum rekstri skólans,
- vinna með skólanefnd að gerð fjárhags- og starfsáætlana til lengri og skemmri tíma og sjá til þess að þeim sé framfylgt,
- sjá um að lögum, reglugerðum og námskrá sé framfylgt,
- ráða, að höfðu samráði við skólanefnd, starfsfólk skóla eftir því sem gildandi lög segja til um og skipta með þeim verkum,
- hafa yfirumsjón með starfi kennara og annarra starfsmanna skólans og fylgjast með því að þeir ræki skyldur sínar og njóti þeirra réttinda sem þeim ber,
- sjá til þess að fylgst sé með því að nemendur stundi nám sitt, hlíti þeim reglum sem settar eru og njóti þeirra réttinda sem þeim ber,
- taka afstöðu til og úrskurða um álitamál vegna innra starfs og starfstíma skólans,
- sjá um tengsl skólans út á við, m.a. við aðstandendur nemenda, aðra skóla og aðila á öðrum sviðum atvinnulífsins,
- vera framkvæmdastjóri skólanefndar með málfrelsi og tillögurrétt,
- vera oddviti skólaráðs,
- kalla saman kennarafundi,
- bera ábyrgð á innra mati á starfi skólans,
- bera ábyrgð á að starfsemi skólans sé kynnt,
- sjá til þess að fyrir liggi upplýsingar um skólastarfið og að nauðsynlegar skýrslur um það séu gerðar.
Hlutverk konrektors
Í reglugerð um starfslið og skipulag framhaldsskóla segir: "Skólameistari ræður aðstoðarskólameistara að höfðu samráði við skólanefnd til allt að fimm ára í senn að undangenginni opinberri auglýsingu.
Aðstoðarskólameistari skal uppfylla skilyrði í ákvæðum laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Endurráðning er heimil að undangenginni auglýsingu.
Aðstoðarskólameistari er staðgengill skólameistara og vinnur með honum við daglega stjórn skólans og rekstur.
Nánar má kveða á um starfsskyldur aðstoðarskólameistara í erindisbréfi er skólameistari setur."
Hlutverk kennslustjóra
Kennslustjóri hefur umsjón með nemendabókhaldi, þar á meðal skráningu nemenda, fjarvistarskráningu, mati á námi og útgáfu námsferla. Hann heldur utan um framkvæmd skólareglna og er tengiliður kennara við yfirstjórn skólans varðandi agamál nemenda. Kennslustjóri er kennurum til stuðnings varðandi agastjórnun og námsmat og hefur umsjón með skipulagi námsmats sem fer fram á matsdögum. Hann situr í skólaráði og er framkvæmdastjóri þess og kennslustjóri er tengiliður yfirstjórnar skólans við foreldraráð MS og nemendafélag MS.
Hlutverk námsbrauta- og námskrárstjóra
Námbrauta og námskrárstjóri er hluti af stjórn skólans. Hann hefur umsjón með skipulagi námsbrauta, þróun þeirra og farsælli innleiðingu námsmarkmiða . Hann heldur utan um námskrá skólans og gerir tillögur til rektors um þróun hennar og samhæfingu breytinga til að tryggja að þær verði í samræmi við markmið. Námsbrauta- og námskrárstjóri hefur yfirumsjón með vali nemenda og skipuleggur valdaga og úrvinnslu gagna tengdum þeim. Hann heldur saman gögnum um námsferil nemenda og annast gerð stundaskrár fyrir nemendur og kennara. Hann skipuleggur fundi með fagstjórum í samráði við aðra stjórnendur.
Síðast uppfært: 29.06.2018