Upplýsingar fyrir forsjárfólk/aðstandendur nýnema frá foreldraráði

Margs konar félagsstarf fer fram í skólanum. Nemendafélagskólans stendur fyrir því og kynnir það fyrir nemendum. Vert er að hafa í hugaað í 39. gr. framhaldsskólalaga nr. 92/2008 segir að nemendafélög starfi á ábyrgð skóla þannig að öll starfsemi auglýst á vegum nemendafélags er á ábyrgð skólans. Það sem foreldra margra nýnema uggir helst eru böll og aðrar samkomur þar sem megin tilgangur er að skemmta sér og því miður eru stundum vímuefni höfð um hönd.

Böll á vegum skólans/nemendafélagsins

Í byrjun annar setur nemendafélagið fram tillögu um hvenær böll verða haldin á önninni og verður hún að hljóta samþykki skólayfirvalda. Eru þau að jafnaði 4 yfir skólaárið. Foreldraráð fær tilkynningu um öll böll sem eru á vegum skólans og sendir netpóst til foreldra um ballið, hvar það er haldið, hvenær og sérstaklega, hvenær því lýkur. Við mælum eindregið með að nemendur séu sóttir að dansleik loknum.

Framkvæmd: Skólinn setur ákveðnar reglur fyrir böllum. Fyrir sérhvert ball er gerður samningur milli nemendafélagsins, skólayfirvalda og ballhaldara (sem er yfirleitt skemmtistaður úti í bæ) um sjálft ballið, tilhögun gæslu o.fl. Einnig þarf samþykki lögreglunnar en það samþykki er forsenda þess að dansleikurinn verði haldinn. Á dansleiknum sjálfum er skólinn með sína fulltrúa, en þeirra hlutverk er eingöngu að fylgjast með hvernig til tekst. Samið er við fyrirtæki um gæslu á dansleikjunum og svo er viðkomandi skemmtistaður einnig með sitt fólk. Ábyrgð á skipulagningu dansleiks er á höndum nemendafélagsins og skólans.

Gangi dansleikur ekki vel skv. skýrslu gæslumanna hefur það áhrif á hvenær og með hvaða skilyrðum næst verður dansleikur á vegum skólans. Ef nemendur virða ekki reglur sem gilda á viðburðum á vegum skólans og eða eru í óásættanlegu ástandi á dansleiknum eru foreldrar þeirra kallaðir til. Lögregla er kölluð til verði vart við ólögleg vímuefni, svo og ofbeldisafbrot. Skólinn leggur mikla áherzlu á vímuefnalaus böll og hvetur m.a. til þess með edrú-pottinum.

Aðrar samkomur, sem ekki eru á vegum skólans, svo sem sumarbústaðaferðir, bjórkvöld og fyrirpartý

Margs konar samkomur bjóðast nemendum sem ekki eru á vegum skólans þó þær séu á einhvern hátt kenndar við hann, oft er þrýstingur frá hópnum um að nemendur taki þátt í þeim. Þetta geta verið sumarbústaðaferðir„sem allir fá að fara í“ eða bjórkvöld, sem „góðhjartaðir“ einstaklingar halda og fyrirpartý. Foreldraráðið varar við slíkum samkomum nema forráðamenn þekki vel til og treysti þeim sem halda þau. Fyrirpartý fyrir böll ættu aldrei að vera haldin án forráðamanna og ættu þau að vera áfengis- og vímuefnalaus.

Af skiljanlegum ástæðum fær foreldrafélagið ekki formlega að vita af þessum samkomum, en treystir á að foreldrar sem frétta af þeim láti félagið vita og mun félagið þá senda línu til foreldra ef ástæða þykir til. Leiki vafi á um hvort samkoma er á vegum skólans/nemendafélagsins eða ekki er hægt að hafa samband við skrifstofu skólans.

Skólinn veitir nemendum og foreldrum/forráðamönnum ýmsan stuðning

Félagsmálastjóri er starfsmaður skólans sem styður við félagslíf nemenda á ýmsan hátt þar á meðal með því að vinna með nemendum að skipulagningu félagslífsins.

Námsráðgjafar skólans hafa m.a. það hlutverk að sinna nemendum á faglegan hátt í námi þeirra og einkamálum.

Fésbókarsíða foreldrafélagsins. Sjá nánar:

(Tekið saman af stjórn foreldrafélagsins veturinn 2012.)

Síðast uppfært: 13.12.2022