Í október 2020 var sótt um aðild (accreditation) að Erasmus+ 2021-2027 og fékkst jákvætt svar við þeirri umsókn. Verkefnisstjóri um erlent samstarf og skólastjórnendur byrjuðu á að ræða saman um þær þarfir og áskoranir sem skólinn stendur frammi fyrir núna. Í kjölfarið var vinnuhópur kallaður saman til að ræða um hvaða markmið ætti að setja út frá eftirfarandi þáttum þ.e. kennslufræði, fjarkennsla, umhverfismál, brotthvarf, þjónusta við nemendur, starfsþróun og stjórnun. Vinnuhópurinn var skipaður konrektor, kennslustjóra, fjármálastjóra, umhverfisfræðikennara og verkefnisstjórum um erlent samstarf, sjálfsmat, þróunar og nýbreytnistarf, starfendarannsóknir og Grænfánaverkefnið. Hópurinn ræddi málin á tveimur samtalsfundum sem haldnir voru á Teams sem stóðu yfir í klukkatíma hvor fundur. Allir lásu skjalið með markmiðunum yfir og komu með ýmsar ábendingar. Einnig fengu allir fagstjórar tækifæri til að fara yfir markmiðin og koma með ábendingar. Skólastjórnendur fóru að lokum yfir markmiðsskjalið og samþykktu endanlegu útgáfuna. Eftirfarandi tíu markmið voru sett til að vinna að í Erasmus+ verkefnum frá 2021-2027:
- Efla hæfni kennara til að innleiða fjölbreyttar námsmatsaðferðir með áherslu á leiðsagnarnám og mat á hæfni nemenda.
- Auka hæfni alls starfsfólks til að skapa menningu sem stuðlar að því að byggja upp námskraft nemenda með áherslu á virkni og sjálfræði nemenda á námi sínu.
- Auka hæfni kennara til að innleiða verkefnabundið nám með áherslu á samvinnunám og skapandi nám nemenda.
- Efla hæfni kennara í upplýsingatækni með áherslu á nýtingu fjölbreyttra forrita í fjarkennslu.
- Efla hæfni kennara í að búa til rafrænt námsefni og rafræn verkefni fyrir nemendur.
- Auka vísindalega þekkingu og skilning kennara á sjálfbærni, umhverfismálum og umhverfisvernd og efla hæfni þeirra til aðfá nemendur til að aðlaga lífsstíl sinn grænum eða sjálfbærari lífsstíl og efla umhverfisvernd í MS.
- Auka hæfni starfsfólks til að finna og innleiða leiðir til að halda brotthvarfi nemenda áfram lágu.
- Efla hæfni kennara og starfsfólks á þjónustusviði í virkri hlustun og finna leiðir til að stuðla að jákvæðum samskiptum nemenda innan og utan kennslustofunnar.
- Efla þekkingu og skilning kennara og annars starfsfólks á aðferðafræði starfendarannsókna og auka möguleika þeirra á að skapa tengsl í Evrópu við starfsfólk skóla sem stunda starfendarannsóknir.
- Finna leiðir til að byggja upp jákvæðan skólabrag, búa til nýtt umsjónarkerfi og bæta móttöku nýnema í nýju þriggja anna kerfi.