Forkröfur: STÆR2HV05
Áfanginn fjallar um undirstöðuatriði sígildrar aflfræði og birtingarmyndir þeirra í daglegu lífi. Kennslan grundvallast á samvinnu nemenda við skriflegar úrlausnir dæma og verklegar athuganir. Áhersla er lögð á öflugt námssamfélag og áhugavakningu þátttakenda.
Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- eðli og hlutverki eðlisfræðinnar sem vísindagreinar
- meðferð tölulegra gagna og framsetningu þeirra
- helstu hugtökum aflfræðinnar og beitingu þeirra við tölulega útreikninga
- hreyfingu eftir beinni línu og muninum á hraða og hröðun
- notkun vigra við lýsingu á hraða og kröftum
- kraftlögmálum Newtons og beitingu þeirra
- þyngdarsviði jarðar og þyngdarhröðun
- varðveislu skriðþunga
- þrýstingi og mismunandi einingum hans
- lögmáli Arkimedesar og uppdrifskrafti
- vinnu ásamt umbreytingu orku milli stöðu- og hreyfiorku
Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- beita hinum ýmsu hugtökum eðlisfræðinnar við tölulega útreikninga
- framkvæma einfaldar tilraunir og setja niðurstöður fram á skýrsluformi
- beita grunnlögmálum eðlisfræðinnar til að greina náttúruleg fyrirbrigði
- leysa skrifleg dæmi með ítarlegri uppsetningu og útleiðslu með einingum
- nota einfaldan tækjabúnað í tilraunastofu
Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- nota tölvur og tölfræðileg forrit til að mæla og reikna þætti í verklegum tilraunum
- skrá athuganir skipulega, túlka niðurstöður og setja fram bæði myndrænt og á vönduðu máli
- útskýra hreyfiaflfræði í daglegu lífi og tilsvarandi áhrifaþætti
- bera kennsl á afleiðingar breytinga aflfræðilegra þátta í einföldum kerfum