Meginmarkmið á starfsbraut Menntaskólans við Sund er að nemendum líði þar vel og séu öruggir. Lögð er áhersla á að aðstaðan og námið sé hvetjandi umhverfi til að þroska með sér hæfni og getu til að takast á við fjölbreytt viðfangsefni dagslegs lífs; á heimili, í vinnu, í tómstundum og í frekara námi.
Áhersla er lögð á fjölbreytta kennsluhætti sem eru sniðnir að þörfum og getu nemenda og er unnið út frá einstaklingsáætlunum. Þar sem námið er einstaklingsmiðað er ekki sjálfgefið að nemandi geti tekið alla áfanga sem skilgreindir hafa verið í kjarna og því verður að gera ráð fyrir því að aðlaga þurfi áherslur í námi og bregða út af rammanum. Kennarar starfsbrautar eru í nánu samráði við forráðafólk, starfsfólk félagsþjónustunnar og aðra sem koma að nemendum.
Í námi á starfsbraut fá nemendur einingar en þær gilda ekki til stúdentsprófs. Boðið er upp á nám í kjarnagreinum eins og íslensku, stærðfræði, ensku, íþróttum, heilbrigðisfræði, lífsleikni, félagsfræði, náttúrufræði og starfsfræðslu auk þess sem áhersla er lögð á list-, tækni-, og verkgreinar.
Starfsbraut er fjögurra ára nám að loknum grunnskóla og í samræmi við starfsár framhaldsskólans. Starfsbraut MS tók til starfa haustið 2022 og er enn í mótun. Skólaárið 2024 – 2025 voru átján nemendur skráðir á brautina.
Starfsfólk starfsbrautar
Einnig koma ýmsir fleiri kennarar skólans að kennslu á brautinni og er hópurinn breytilegur á milli anna.
Skóladagatal - kennsludagar
Allar helstu dagsetningar skólaársins má finna hér á heimasíðu skólans. Ekki fer fram kennsla á matsdögum (appelsínugulir dagar í skóladagatalinu) á milli anna en á öðrum matsdögum getur verið einhver dagskrá sem er kynnt nemendum og forsjárfólki hverju sinni.
Staðsetning og aðstaða
Aðstaða starfsbrautar er í Andholti sem er á fyrstu hæð skólans. Staðsetningin er hentug þar sem mikil nálægð er við mötuneyti skólans, íþróttahús og salerni. Aðstaða brautarinnar samanstendur af minni og stærri kennslustofu, sérkennslurými og notalegri setustofu. Í setustofu hafa nemendur brautarinnar ísskáp og samlokugrill kjósi þeir að vera með nesti í skólanum.
Einnig er annað húsnæði skólans nýtt við nám og kennslu á brautinni, s.s. íþróttahús, list- og verkgreinastofur. Auk þess sem farið er í reglulegar vettvangsferðir.
Gjaldskrá
Ekki er gert ráð fyrir að nemendur á starfsbraut kaupi námsbækur en þess í stað greiða þeir námgagnakostnað og efnisgjöld fyrir hverja önn.
Gjaldskrá starfsbrautar vegna skólaársins 2024-2025 |
Gjald |
Það sem greitt er fyrir |
Innritunargjald fyrir hverja önn - Innritunargjald er lögbundið og óafturkræft |
4.000.- |
|
Þjónustugjald fyrir hverja önn |
6.000.- |
Aðgangur að þráðlausi neti og netfang. Prentkvóti (250 blöð). Aðgangur að Office 365 hugbúnaði o.fl. |
Nemendafélagsgjald SMS fyrir hverja önn* (valkvætt) |
4.500.- |
* |
Foreldraráð MS fyrir hverja önn* (valkvætt) |
1000.- |
* Frá og með vetrarönn 2024-2025 hækkar framlag til foreldraráðs úr 350 kr í 1000 kr á önn. Foreldrar með tvö eða fleiri ungmenni í skólanum greiða gjaldið aðeins fyrir eitt ungmenni. Hafa þarf samband við skrifstofu skólans í þeim tilfellum. Sjá nánar hér. |
Námsgagnakostnaður og efnisgjöld
|
20.000.- |
Bækur, ritföng, forrit, námsefni á vef, fjölritun, efni í list- og verkgreinum. |
*Kjósi nemandi að vera utan Skólafélags Menntaskólans við Sund (SMS) eða sleppa greiðslu til foreldraráðsins þarf að tilkynna um slíkt í tölvupósti til skrifstofu (msund@msund.is) tveim dögum fyrir eindaga greiðsluseðils hverrar annar og óska eftir endurgreiðslu á nemendafélagsgjaldi og/eða greiðslu til foreldraráðs.
Veikindatilkynningar- og leyfisbeiðnir
Veikindatilkynningar- og leyfisbeiðnir fara í gegnum INNU, sjá hér.
Síðast uppfært: 06.01.2025