Skólasöngur Menntaskólans við Sund

Skólasöngur Menntaskólans við Sund var færður skólanum að gjöf á útskriftarhátíð skólans 28. maí 2004 af þeim sem þá fögnuðu 20 ára stúdentsafmæli. Lagið er eftir Tryggva M. Baldvinsson en ljóðið er eftir Önnu Hinriksdóttur.

 

Í Menntaskóla við Sund

Glitrar sól á glæstan sæ,
glæðir líf um sund og voga.
Sækir að úr sveit og bæ
sómafólk af ýmsum toga.
Mætt er á merkan fund
í menntaskóla við Sund.

Vex hér æskuvit og dáð,
vinir bindast tryggðarböndum.
Hér er fróðleiksfræjum sáð,
framtíð mótuð styrkum höndum.
Minnisstæð menntastund
í mætum skóla við Sund.

Líða ár við leik og störf,
lærist margt sem hugann vekur.
Andinn vex og eflist þörf,
önnur ganga loks við tekur.
Komið að kveðjustund
í kærum skóla við Sund.

Ljóð: Anna Hinriksdóttir
Lag: Tryggvi M. Baldvinsson

Maí 2004

 

Hér má finna nótur að skólasöngnum: Skólasöngur MS píanó