EFNA3LÍ05 - Lífefnafræði

Fjallað er um gerð, eiginleika og efnahvörf helstu byggingarefna, orkuefna lífvera. Farið er ítarlega í sykrur, gerðir þeirra og tengi. Fituefni eru skoðuð, flokkun þeirra, hlutverk og helstu eiginleikar. Peptíð og prótein eru skoðuð vel, uppbygging þeirra og flokkun. Skoðuð eru ensím, virkni þeirra og hlutverk þeirra í efnaskiptum. Einnig er fjallað um efnaskipti þessara sömu efna í frumum líkamans þar sem helstu niðurbrots- og nýmyndunarferlum er lýst á sameindagrunni.
 

Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • lífefnunum: próteini, sykrum og lípíðum
  • helstu prófum fyrir afoxandi sykrur; Benedicts og Fehlings próf
  • gerð, hlutverk og flokkun lípíða og annarra fituefna
  • helstu efnahvörfum lípíða, herðing, þránun, vatnsrof og sápun
  • peptíðum og próteinum
  • ensímum; gerð, hlutverki og starfsemi
  • helstu þáttum sem hafa áhrif á hvarfahraða ensímhvataðs hvarfs
  • helstu þrepum sykurrofs (glycolysis)
  • helstu þrepum sítrónusýruhringsins (Krebs-hringur)


Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • finna hendnimiðjur í sameindum og vinna með hugtakið hendni
  • teikna upp byggingu lífefna í flokkunum: prótein, sykrur og lípíð
  • greina á milli helstu gerða lífefnafræðilegra sameinda og flokkun þeirra
  • teikna byggingar einsykra í beinkeðjuformi og hringtengdu hemiacetalformi
  • flokka hringtengdar einsykrur í α- og β-sykrur
  • teikna upp fitusýrur og þríglýseríð eftir lýsingu
  • teikna upp byggingu lípíða
  • teikna einfalt peptíð eftir lýsingu
  • lýsa helstu skrefum sem koma við sögu í efnaskiptaferlum eins og sykurrofi og sítrónusýruhringnum


Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • hafa heildarsýn yfir efnaskipti mannslíkamans
  • sjá tengsl milli náttúrufræðigreina og geta yfirfært þekkingu milli þeirra
  • tengja efnafræðina við daglegt líf og umhverfi og sjá notagildi hennar
  • takast á við frekara nám í efnafræði og tengdum greinum á háskólastigi

Nánari upplýsingar á námskrá.is