Menntaskólinn við Sund er bóknámsskóli með tvær brautir og fjórar námslínur til stúdentsprófs auk starfsbrautar.
Þriggja anna kerfi sem þýðir að skólaárinu er skipt í þrjár jafnlangar annir. Haustönn, vetrarönn og vorönn. Hver önn er 12 vikur og skiptist í kennsludaga, matsdaga og umsjónardag.
Nemendur á félagsfræðabraut taka eina listgrein í kjarna. Allir nemendur geta svo valið sér listgreinar hafi þeir áhuga á. Um er að ræða, myndlist, fatahönnun, leirmótun, raftónlist og kvikmyndagerð.
Fjölbreytni í náms -og kennsluháttum og áhersla lögð á skapandi, verkefnatengt og samvinnutengt nám og unnið er út frá þeirri kennslufræði að byggja upp námskraft nemenda (BLP).
Ekki er sérstakt prófatímabil heldur er símat í öllum áföngum og gert er ráð fyrir stöðugri og jafnri vinnu allra út allt skólaárið.
Nemandi í fullu námi er ýmist í 4 eða 5 áföngum í einu en kerfið er sveigjanlegt og býður upp á það að nemendur stilli af námshraða sinn miðað við getu og aðstæður.
Félagslífið er öflugt og og fjölmargar nefndir starfandi. Í hverri nefnd er gert ráð fyrir nýnema að hausti til, svo nemendur sem hafa virkilegan áhuga á að hafa áhrif á félagslífið geta sótt um setu í nefndum strax við upphaf skólagöngu sinnar.
Hér má sjá myndband sem nemendur hafa útbúið til að kynna skólann sinn. Fjallað er um skólann, húsnæðið, brautirnar og línurnar og auðvitað félagslífið.
Félagsfræðabraut
Á félagsfræðabraut er lögð áhersla á menningu, tungumál, sögu og samfélag. Þar fá nemendur tækifæri til að efla samskiptahæfni sína, lýðræðis- og jafnréttisvitund, læsi í víðum skilningi og tjáningu í ræðu og riti. Félagsfræðabrautin skiptist í tvær línur:
félagsfræði- og sögulínu
hagfræði- og stærðfræðilínu.
Náttúrufræðibraut
Á náttúrufræðibraut er lögð áhersla á góðan skilning á náttúrufræðilegum hugtökum, vísindalegum vinnubrögðum og hugsunarhætti sem nýtist í daglegu lífi. Náttúrufræðibrautin skiptist í tvær línur:
eðlisfræði- og stærðfræðilínu
líffræði- og efnafræðilínu.
Námsbrautir í MS
Í MS er boðið upp á nám á eftirfarandi námsbrautum:
Almennt skilyrði þess að hefja nám til stúdentsprófs í Menntaskólanum við Sund á öðru hæfnistigi í lykilgreinum haustið 2024 er að hafa hlotið að lágmarki einkunnina B í íslensku, stærðfræði og ensku við lok grunnskóla. Við úrvinnslu umsókna áður en þær eru sendar til miðlægrar keyrslu eru einkunnir í dönsku, náttúrufræði og samfélagsfræði einnig bornar saman eftir fyrirfram ákveðnu kerfi.
Nemendur verða teknir inn eftir stigafjölda en einnig verður horft til kynjahlutfalla og mun hlutfall hvers kyns ekki fara yfir 60% innritaðra nemenda.
Skólinn áskilur sér rétt til að taka inn nemendur með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn með lægri einkunn í íslensku ef þeir uppfylla inntökuskilyrði að öðru leyti.
Hvers vegna heitir skólinn Menntaskólinn við Sund?
Skólinn var stofnaður 1. október 1969 og hét upphaflega Menntaskólinn við Tjörnina enda stóð hann þá við Tjörnina í Reykjavík. Síðar var hann fluttur í Vogahverfið og vorið 1977 tilkynnti þáverandi menntamálaráðherra að skólinn skyldi eftirleiðis heita Menntaskólinn við Sund. Hérmá lesa meira um sögu skólans.
Hvað eru margir nemendur í skólanum?
Í MS eru um 600-700 nemendur.
Ljúka allir námi á þremur árum?
Alls ekki - nemendur í MS ljúka námi þegar þeir eru tilbúnir. Hér má lesa meira um námsframvindu.
Get ég fengið annað nám metið í MS?
Nemendur geta fengið framhaldsskólaáfanga úr öðrum skólum metna inn á sinn námsferil svo lengi sem áfanginn passi við uppbyggingu brautarinnar. Nemendur sem stunda tónlistarnám, afreksíþróttir, taka þátt í félagslífi o.fl. geta fengið það metið til eininga, sjá nánar hér.
Hvernig er námsmatið í MS?
Í MS eru engin lokapróf og símat í öllum áföngum. Lögð er áhersla á leiðsagnarnám og sjálfstæði og virkni nemenda í tímum.
Er boðið upp á sérúrræði fyrir nemendur með lesblindu, ADHD og fleira?
Já skólinn styður alla nemendur í sínu námi. Nauðsynlegt er að vera í sambandi við náms- og starfsráðgjafa til að fá þau úrræði sem þörf er á hverju sinni.
Hvernig er félagslífið?
Félagslífið í MS er fjörugt og skemmtilegt og alltaf nóg að gera. Hérmá fræðast nánar um Skólafélag Menntaskólans við Sund (SMS).
Ræð ég miklu um samsetningu námsins?
Já – nemendur á öllum námslínum hafa töluvert val um samsetningu námsins utan kjarnaáfanga hverrar námslínu.
Þarf ég fartölvu?
Það er ekki skylda að vera með fartölvu en það er æskilegt að nemendur hafi fartölvu til umráða í skólanum. Nemendur geta fengið tölvuaðstoð í Vikusteini og fá aðgang að Microsoft 365.
Hver eru innritunargjöldin?
Innritunargjöld eru innheimt fyrir hverja önn. Hér má skoða gjaldskrá skólans.
Hvernig er skólaárið uppbyggt?
Skólaárið skiptist í þrjár annir, haustönn, vetrarönn og vorönn. Hér má sjá skóladagatal MS.