Viðbrögð vegna Kórónaveirunnar

Öryggisnefnd Menntaskólans við Sund hefur fundað sérstaklega um fyrstu viðbrögð vegna kórónaveirunnar. Þegar hefur verið ákveðið að grípa til ráðstafanna sem snerta hreinlæti á vinnustaðnum og verið er að vinna fræðsluefni fyrir nemendur og starfsfólk skólans. Landlæknisembættið hefur þegar birt all ítarlegar upplýsingar og fræðsluefni um viðbrögð við dreifingu veirunnar og eru allir hvattir til þess að kynna sér vel það efni á heimasíðu landlæknisembættisins, https://www.landlaeknir.is/koronaveira/


Hér að neðan má lesa leiðbeiningar embættis landlæknis um sýkingavarnir fyrir almenning sem sótt var 3.2.2020:

Sýkingavarnir fyrir almenning

Sjá stærri mynd

Allt umhverfi okkar er þakið milljónum örvera, bakteríum, veirum og frumdýrum. Langflestar þessara örvera valda hvorki sýkingum né öðrum vandamálum en þó eru undantekningar þar á. Þar má telja inflúensuveirur og nóróveirur ásamt bakteríum eins og salmonellu, clostridium difficile og ónæmum bakteríum, s.s. MÓSA.

Flestir sem fá slíkar sýkingar ná sér fljótt, en þeir sem eru mjög ungir eða gamlir eða með langvinna undirliggjandi sjúkdóma eru viðkvæmari en aðrir og eru því í aukinni hættu. Fyrir slíka einstaklinga geta þessar sýkingar haft alvarlegar afleiðingar.

Sýkingakeðjan, sem sýnd er á mynd hér að ofan, skýrir hvernig smit getur borist milli manna og valdið sýkingu. Sýking getur borist um líkamann frá einum stað í annan og valdið veikindum eða frá öðru fólki, umhverfi, mat eða dýrum.

Fólk getur sýkst ef smitefni er borið með beinni snertingu frá einum til annars, með því að anda smitefni inn um nef eða munn eða með því að gleypa smitefni með mat og drykk. Sýkingar geta líka komið í kjölfar ástungu á húð, um sár á húð eða með inniliggjandi áhöldum s.s. þvagleggjum.

Að fyrirbyggja sýkingar þýðir að rjúfa sýkingakeðjuna þannig að komið sé í veg fyrir sýkingu. Í daglegu lífi er hægt er að gera það með einföldum aðgerðum:

  • Vandaðri handhreinsun
  • Gæta hreinlætis við matargerð
  • Nota hanska og svuntu ef unnið er með mengað efni
  • Með vönduðum þrifum áhalda og umhverfis