Því miður er það þannig í dag að aldrei hefur verið eins auðvelt fyrir huglausa gerendur eineltis að níðast á fólki og vera engu að síður sjálfur nafn og andlitslaus. Neteinelti getur verið af allt öðrum toga, alvarlegra og víðtækara en það einelti sem var viðhaft fyrir daga samfélagsmiðlanna. Þrátt fyrir að staðan sé þessi og gerendur neteineltis geti þrengt sér inn í líf fórnarlamba sinna nánast hvar sem er þá er það samfélagsleg skylda okkar að reyna að verja þá sem níðst er á. Það er skylda okkar að reyna að breyta þeirri hegðun sem leiðir til svona óhæfuverka og það er skylda okkar að reyna að stöðva þá sem þannig hegða sér og láta þá sæta ábyrgð á gjörðum sínum. Eineltismál geta komið upp í Menntaskólanum við Sund eins og í öðrum skólum og á öðrum stórum vinnustöðum. Þegar það gerist er mikilvægt að virkja þá ferla sem hafa verið settir í skólanum þannig að viðbrögðin láti ekki standa á sér og séu sem faglegust. Á vefsíðu skólans má lesa um stefnu skólans í eineltismálum, hvaða aðilar það eru innan skólans sem hægt er að leita til og hvernig aðgerðaáætlun skólans í þessum málum lítur út. Sjá nánar [Stefna í eineltismálum] .
Neteinelti á sér ekki sömu rýmistakmarkanir og annað einelti. Það fer fram hvar sem er og gerendur geta oft falið hverjir þeir eru auk þess sem erfitt getur verið að fá þá sem bera ábyrgð á samfélagsmiðlunum til þess að fjarlægja það sem meiðir og særir. Menntaskólinn við Sund hvetur ábyrgðaraðila samfélagsmiðla að sýna ábyrgð og fjarlægja hin meiðandi ummæli. Ef á þarf að halda mun skólinn ekki hika við að kæra einelti til lögreglu og ef gerendur eineltis eru innan skólans verða þeir látnir sæta ábyrgð í samræmi við reglur og heimildir skólans til þess að taka á málum sem þessum. Gerendur eineltis eiga ekki að fá að vera óáreittir í Menntaskólanum við Sund.