Ákveðið hefur verið að öll bókleg kennsla og kennsla í íþróttum verður með fjarkennslusniði út desember en listgreinarnar verða áfram í staðkennslu eins mikið og hægt er.
Við vonumst til, og gerum ráð fyrir, að frá og með áramótum verði hægt að opna skólann meir og allt nám í MS verði í staðnámi að minnsta kosti að hluta til. Það er þó háð því að vel gangi að vinna á veirunni og reglugerð ráðherra á þeim tíma gefi skólunum möguleika á að færa námið í staðnám að fullu eða að hluta til.
Eins og búast má við eru uppi margar og ólíkar skoðanir á því hvernig ber að hátta skólahaldi og sitt sýnist hverjum. Starfsfólk MS, nemendur og aðstandendur þeirra og margir aðrir bera saman framkvæmd skólastarfs í hinum ýmsu skólum og spyrja oft hvers vegna er þetta svona hjá ykkur en öðru vísi þarna? Svar við þessu er í senn bæði einfalt og flókið.
Skólinn tekur ákvörðun um skipulag kennslu og náms þegar yfirvöld hafa gefið út reglugerð um sóttvarnir og skipulag skólastarfs.
Ákvörðun um skipulag í MS
Ákvörðun MS um að hafa íþróttir og bóknám með fjarkennslusniði út desember en listgreinar í staðnámi er tekin út frá nokkrum forsendum:
- Reglugerð um sóttvarnir og reglur um skólahald Þessar reglur setja þær hömlur á skólastarf að hámarksstærð einstakra hópa sé að hámarki 25 (að meðtöldum kennara). Reglurnar kveða líka á um 2 metra fjarlægðarmörk og grímuskyldu þar sem ekki er hægt að tryggja að fullu að fjarlægðarmörk séu alltaf virt. Í reglunum er lagt blátt bann við blöndun hópa og er það bann ekki bundið blöndun hópa innan eins dags.
- Stefna ráðherra að hafa eins mikið af námi í staðnámi og hægt er með sérstakri áherslu á verk og iðnnám, listgreinanám og sérdeildir og kennslu nýnema almennt Í MS er ekkert iðn eða verknám og ekki heldur sérdeild en listgreina kennsla er töluvert umfangsmikil í skólastarfinu (9-10% af heildarkennslumagni) og er til staðar á afmörkuðu svæði í skólanum.
- Þriggja anna kerfið, námskrá MS, stokkataflan og húsnæðið Skipulag okkar er annað en í flestum öðrum skólum og þar má nefna áherslur okkar í námskránni, kennslufyrirkomulag og námsmat þar sem yfirgripsmikil lokapróf sem einkenna starf flestra skóla hafa verið aflögð í MS. Þessi munur á MS og flestum öðrum skólum setur okkur bæði ákveðnar skorður varðandi skipulagið á tímum Covid en skapar okkur líka ákveðin tækifæri og sveigjanleika sem skortir annars staðar. Skipulag okkar hefur hins vegar komið í veg fyrir að hægt hafi verið að gera sérstakar ráðstafanir varðandi kennslu nýnema.
- Þriggja anna kerfið í MS og öðru vísi stokkatafla búa til annan hrynjanda í skólastarfið og skipulagið á tímum Covid hefur sannarlega tekið mið af stokkakerfinu og tækifærum okkar til að uppfylla ákvæði um sóttvarnir og sótthreinsun snertiflata á milli hópa.
- Húsnæði MS er ágætlega hentugt hvað varðar skiptingu í sóttvarnarhólf þannig að með því að loka á flæði nemenda á milli hólfa þegar eitthvert staðnám hefur verið í gangi hefur tekist að koma í veg fyrir hópsmit þegar upp hafa komið smit í skólanum. Skólanum hefur því tekist ágætlega að hólfa skólann niður þegar sú krafa hefur verið gerð til skólahalds.
- Upplýsingagjöf, staðfesta og fyrirsjáanleiki Frá þeim tíma að kórónuvírusinn kom upp nálægt upphafi vorannar 2020 hafa nemendur og starfsfólk þurft að búa sig undir sífelldar breytingar á sínu starfsumhverfi eftir því hvaða sóttvarnarreglur giltu hverju sinni. Staðnám, flókið ástand með blöndu af staðnámi og fjarnámi með ýmist heilum eða hálfum hópum, fjarnám að fullu nema í listgreinum og svo framvegis. Allt þetta hefur gengið framúrskarandi vel en óvissan og þreytan sem fylgir sífelldum breytingum tekur sannarlega á.
Í ljósi þessa eftir samráð og samræður við aðra skóla sem búa við svipaðar aðstæður eða skipulag sem setur svipaðar hömlur á eðlilegt skólastarf var tekin sú ákvörðun í MS að við myndum klára kennslu fram að jólafríi í fjarnámi, nema í listgreinum þar sem keyrt yrði eins mikið staðnám og hægt væri. Blátt bann við blöndun hópa kemur í veg fyrir að hægt er að halda úti kennslu í bóklegum greinum en það bann hindrar ekki kennslu í listgreinum en kallar þó á ákveðnar lausnir varðandi þá einstaklinga sem eru með meira en eina listgrein undir á hverri önn.
Skipulag kennslu í öðrum framhaldsskólum
Í dag er það þannig að í nær öllum hefðbundnum bóknámsskólum er allt bóknám í fjarnámi og þar sem hefð er fyrir prófahaldi í lok anna hefur það verið endurskipulagt eða fært að fullu í netprófun.
Bann við blöndun hópa er stærsta hindrunin gegn því að hægt sé að kalla nemendur inn í skólana. Þetta bann hindrar einnig hefðbundið skipulag prófa. Til eru undantekningar frá þessu en þær eru bundnar afar fámennum skólum eða skólum sem eru með bekkjarkerfi þar sem bann við blöndun hópa hefur ekki jafn afgerandi áhrif. Jafnvel í bekkjarkerfisskólunum eru aðstæður þannig að ekki er hægt að halda úti eðlilegu skólastarfi, hvorki þegar kemur að kennslu né heldur prófahaldi. Útfærslan er þó mismunandi.
Iðn og verknámsskólar og aðrir sem eru með fjölbrautafyrirkomulagi hafa farið þá leið að halda úti staðnámi í verklegum áföngum (mismiklu) en bóknámið er almennt í fjarnámi. Reynt er að halda úti kennslu sérdeilda enda er þar, eins og í iðn og verknámi, listnámi og í bekkjarkerfi ekki sama hætta á blöndun á milli hópa.
Skólahald í MS eftir áramótin
Skólinn stefnir á að um leið og aðstæður verða þannig að hægt verði að kalla nemendur í bóknámsgreinum inn í skólann verði það gert. Eins og staðan er núna í baráttunni við Covid, með tilliti til þess að flestir skólar, á öllum skólastigum, hefja nýja önn um áramótin má búast við því að verði ekki bakslag í dreifingu veirunnar verði fljótlega þá hægt að kalla nemendur í meira mæli inn í skólann. Við búum okkur undir að svo verði.
Langvarandi áhrif af skólahaldi með þessu sniði eru ekki komin í ljós. Við vitum nú að okkar nemendur eru ekki farnir að sýna nein merki í einkunnum né ástundun að ástandið hamli þeim í náminu en það er vitað að þreytan sígur að og við því reynum við að bregðast með því að halda fast utan um okkar nemendur. Við munum efla stoðþjónustuna nú um áramótin og ráða inn sálfræðing og ætlum okkur, til lengri tíma, að bjóða nemendum upp á enn sterkara stuðningsteymi. Allir sem koma að starfi framhaldsskólanna gera sér grein fyrir mikilvægi þess að nemendur geti sótt skólann sinn. Á meðan núverandi ástand varir er jafn mikilvægur þáttur í skólastarfinu eins og félagslíf nemenda ekki svipur hjá sjón og við því þarf að bregðast.