Í næstu viku verður skólahald í Menntaskólanum við Sund blanda af stað og fjarnámi og verður fyrirkomulagið það sama og var áður en smit kom upp í skólanum. Við kennum skv. stundatöflu. Í listgreinum eru heilir hópar en í almennum áföngum eru hópar tvískiptir og er um helmingur í tíma hverju sinni, nema þegar um próf er að ræða, Staðkennsla fer fram í morgunstokki og síðdegisstokki og sama fyrirkomulag er áfram með miðstokkinn. Íþróttakennsla verður í næstu viku, eins og var áður, blanda af fjarnámi og útikennslu.
Skólinn hvetur alla til þess að gæta að virða fjarlægðarmörk, gæta að hreinlæti, þvo hendur og spritta, virða hólfaskiptingu í skólanum og muna að það er grímuskylda í MS. Við sjálf ráðum mestu um það hvernig gengur að ná tökum á ástandinu og þurfum því að vanda okkur.
Nokkrir kennarar í skólanum verða með sína kennslu í fjarvinnu og nokkur fjöldi nemenda verður næstu daga í sóttkví og þurfa þeir því að stunda fjarnám þar til þeir losna úr sóttkví.
Á mánudag mæta því flestir nemendur og starfsfólk MS í skólann og saman vinnum við sem best úr þessum aðstæðum. Rektor