Rafhleðslustöðvar við Menntaskólann við Sund - eitt skref enn í átt að grænni lífsstíl

MS hefur sett upp rafhleðslustöðvar við skólann sem ætlaðar eru nemendum og starfsfólki skólans og er hægt að hlaða 4 bíla samtímis. 

 Með þessu er skólinn að koma á móts við vaxandi hóp sem ferðast með rafmagnsbílum eða tengitvinnbílum. Uppsetning stöðvanna er einnig hluti af aðgerðaáætlun skólans í umhverfismálum en MS er með umhverfisfræði sem skyldu námsgrein á öllum námslínum, skólinn færir sjálfur grænt bókhald og tekur þátt í verkefninu "Græn skref í ríkisrekstri". Gjald er tekið fyrir hleðsluna og er verðinu stillt í hóf. Hleðslustöðvarnar eru settar upp í samvinnu við ÍSORKU og þurfa notendur að vera með smáforrit (app) frá þeim til þess að geta nýtt sér stöðvarnar. Áður en hlaðið er í fyrsta sinn þarf síðan að sækja um til ÍSORKU að nota þessar tilteknu stöðvar við MS. Án þeirrar heimildar virka stöðvarnar ekki fyrir viðkomandi. Nánari upplýsingar um hleðslulausnina við MS má lesa á auglýsingunni hér að neðan.