Nýjungar á vetrarönn

Nú er fyrstu kennsluviku vetrarannar lokið og hafa annaskiptin gengið ljómandi vel. Nóg var um að vera í skólanum þessa vikuna og kom skemmtilega út að hafa 85 þemavikuna strax í upphafi annar, það er spennandi en líka krefjandi fyrir marga að byrja í nýjum áföngum með nýju samstarfsfólki og 85 stemmingin gerði vikuna léttari og opnari. 85 stemmarinn náði svo hámarki í gær þegar sjálfur 85 dansleikurinn var haldinn. Nemendur skemmtu sér vel og voru sér sjálfum og skólanum sínum til mikils sóma. Mjög gaman var að sjá hve margir aðstandendur gengu til liðs við okkur og sinntu foreldraröltinu, þetta hefur mjög mikið að segja og gerir dansleikina okkar bæði aðgengilegri og öruggari.

Við viljum vekja athygli á því nú við upphaf vetrarannar að það verða þrjú tilraunaverkefni í gangi á önninni:

  • Átakið höldum hreinu heldur áfram en þar sækja stjórnendur nemendur í kennslustundir og fá þau með sér í að halda matsalnum snyrtilegum.
  • Átak í mætingu heldur áfram, með sérstakri áherslu á að draga úr seinkomum í kennslustundir.
  • Tilraunaverkefnið í námsmati verður í gangi á vetrarönn, nánar hér.

Það er nóg af spennandi viðfangsefnum og viðburðum framundan í skólastarfinu og við óskum nemendum okkar góðs gengis á nýrri önn!