Nord+ verkefnið Søfarere og sejlerfolk - Nordens maritime fællesskab

MS tekur þátt í Nord+ verkefninu Søfarere og sejlerfolk - Nordens maritime fællesskab. Verkefnið er samstarfsverkefni fjögurra framhaldsskóla; Aurehøj Gymnasium í Danmörku, Katedralskolan í Svíþjóð og Glasir í Færeyjum. Núna á vorönn 2023 hittast nemendur úr framhaldsskólunum fjórum í hópum í netheiminum. Í þessari viku voru nemendur MS að kynnast nemendum frá Færeyjum. Nemendurnir frá Færeyjum voru búnir að undirbúa verkefni um færeyska árabáta sem þeir voru að kynna á dönsku og færeysku fyrir nemendum MS, sem voru búnir að undirbúa kynningu á dönsku um sig sjálf, ásamt því að undirbúa „small talk“ við færeysku nemendurna á dönsku. Þetta tókst mjög vel og komust nemendur okkar meðal annars að því að þeir skildu helmikið í færeysku og að færeysku nemendurnir eru ansi góðir í dönsku. Nemendur sýndu með stolti hvorum öðrum skólana sína og veðrið fyrir utan gluggann. Ekki var annað að sjá en þetta færi vel í okkar mannskap. Næst á dagskrá er að nemendur úr MS hitta nemendur frá Danmörku og Svíþjóð í netheiminum og gera kynningu á dönsku. Í haust er svo „grande finale“ þar sem nemendur frá Færeyjum koma í heimsókn í MS og nemendur frá MS fara í heimsókn til Danmerkur og Svíþjóðar.