MS með málstofu á Menntakviku 2024

Í MS starfa framúrskarandi kennarar og fjórir úr þeim hópi héldu í dag erindi á Menntakviku, ráðstefnu um menntarannsóknir. Á ráðstefnunni var heil málstofa um þróunarstarf í Menntaskólanum við Sund.

G. Rósa Eyvindardóttir fjallaði um starfendarannsókn sína í stjórnmálafræði og kynjafræði þar sem nemendur læra um lýðræði í lýðræði. Nemendur tileinka sér verkfæri sem gerir þau betur í stakk búin að láta að sér kveða, að tjá sig og færa rök fyrir máli sínu. Verkefnið gengur út á inngildandi menntun, þar sem reynt er að ná til allra nemenda, að þau þjálfi hvert og eitt þátttöku og borgaravitund.

Jóna G. Torfadóttir fjallaði um þróun og notkun rafræns námsefnis í íslenskuáföngum í formi vefsíðu sem ætlað er að styðja við leiðsagnarnám. Tilgangur vefsíðunnar er að skapa fjölbreyttar bjargir til stuðnings námsefninu, þar á meðal sniðmát, ítarefni og dæmi um vel heppnuð verkefni.

Katrín Magnúsdóttir fjallaði um Grænfánaáfanga þar sem nemendur ýta undir umhverfisvitund og menntun til sjálfbærni í skólanum. Álykta má að nemendur sem taka þátt í Grænfánaáfanganum verða betur undirbúnir til að takast á við áskoranir samtímans og framtíðarinnar með aukinni vitund og færni í sjálfbærnimálum.

Vignir A. Guðmundsson fjallaði um þróunarverkefni í enskuáfanga sem þjálfar nemendur í miðlalæsi og gagnrýnni hugsun. Markmið verkefnisins er að efla hæfni nemenda til að greina og meta áreiðanleika upplýsinga á internetinu og samfélagsmiðlum. Í verkefninu kynnast nemendur verkfærum sem hjálpa þeim að greina áhrif hugsanaskekkja á skynjun þeirra á efni af netinu.

Á Menntakviku stígur á stokk helsta fræðafólk í menntavísindum og er mikill heiður fyrir MS að eiga fulltrúa á ráðstefnunni. Erindi þeirra Rósu, Jónu, Katrínar og Vignis voru afar fræðandi og hér er sannarlega framúrskarandi fagfólk á ferð sem við megum vera stolt af!