Kæru nemendur og aðstandendur
Nú er maímánuður kominn á fullan skrið og hitastigið fer hækkandi, hvort sem litið er til veðurs eða námsins. Tilslakanir í sóttvarnareglum hafa tekið gildi en því miður eru reglurnar enn strangar og ekki forsendur til að breyta fyrirkomulagi kennslunnar að sinni. Ákveðið var þó að setja verklega kennslu í gang í skólanum með sérstökum aðgerðum en að öðru leyti verður önnin kláruð í fjarkennsluumhverfi og skólinn lokaður nemendum að mestu leyti.
Það er upplifun okkar hér í skólanum að námið gangi vel og almennt sé námsárangur sambærilegur við venjulegt árferði. Þó viljum við hvetja nemendur sérstaklega til að fara vel yfir stöðu mála, skoða námsáætlanir og gæta þess að skila öllum verkefnum samviskusamlega, það eru fáir dagar eftir af önninni og sveigjanleikinn því að minnka hvað skil varðar. Þessu tengt, við vitum að álag að nemendur fer vaxandi þessa dagana og viðbúið er að síðastu kennsluvikurnar verði ansi krefjandi. Í þessu samhengi viljum við ítreka einkunnarorð skólans og mikilvægi akademískra heilinda sem eru hluti af skólareglum/prófareglum. Nú eru nemendur utan kennslustofunnar fjarri vökulum augum kennara og tækifærin til að stytta sér leið undir álagi ef til vill fleiri og meira freistandi en oft áður. Að vinna af heilindum, gæta höfundarréttar og sýna öðru fólki virðingu í leik og starfi eru mikilvæg gildi í nútíma samfélagi og nokkuð sem við viljum innræta okkar nemendum.
Það er einlæg von okkar að ykkur vegni sem allra best næstu dagana og námið haldi áfram að ganga vel!
Bestu kveðjur frá stjórnendum MS