Miðvikudagspósturinn 22.apríl

Síðasti vetrardagur 2020!

Kæru nemendur og forráðamenn

Nú er langur og strangur vetur senn að baki, við vonum að okkar bíði betri tíð með sumarsól! Oft var þörf en nú er nauðsyn 😊

Nú er farið að síga á seinni hluta vorannar og endaspretturinn framundan. Nemendur hafa staðið sig með mikilli prýði og er í raun mesta  furða hve fáir hafa lent í vanda námslega við þær aðstæður sem ríkt hafa síðustu vikur. Skólinn stefnir að því að skóladagatalið haldi og er stefnt á annarlok 29. maí og útskrift þann 30. maí. Skólinn hyggst halda vel utan um hóp útskriftarefna næstu vikur og er það markmið okkar  að ljúka önninni með eins formlegum hætti og kostur er. Skólinn mun upplýsa þennan hóp nemenda sérstaklega þegar þar að kemur. Sem fyrr eru nemendur hvattir til að vera í sambandi við skólann ef þeir þurfa að leita sér stuðnings eða aðstoðar í náminu. Námsráðgjafar eru til taks og skólinn metur það mjög mikils að vera í sem nánustu sambandi  við nemendur sína þrátt fyrir þær áskoranir sem við glímum við þessa dagana. 

Valdagur vorannar 2020

Nemendur á 1. og 2. námsári fá sitt tækifæri til að móta nám sitt á næsta skólaári þann 28. apríl næstkomandi en þá mun skólinn skipuleggja rafrænan valdag. Nemendur á 1. ári velja fyrst og fremst aðra sérhæfingu  og áfanga í íslensku, en nemendur á 2. námsári velja frjálst val og bundið val á braut. Til þess að undirbúa ykkur fyrir valið sjálft skuluð  þið skoða upplýsingavegg fyrir valdag mjög vel. Þar er að finna allar upplýsingar um valið, hvað er í boði og hvernig á  að framkvæma það.

Upplýsingavegginn má finna hér  Upplýsingaveggur vegna valdags.  Á föstudag fá nemendur senda í tölvupósti aðra vefslóð sem er einstök fyrir hvern og einn. Hver og einn nemandi fær þá sendan sinn tengil sem inniheldur sjálft valblaðið. Nemendur opna valblaðið, svara og ýta á submit, þá sendist valið til skólans. 

Við minnum ykkur á upplýsingavef námsráðgjafarinnar, þar er alltaf að bætast við nýtt efni.
https://padlet.com/hildurhg/ms

Framundan eru nokkrir kennslufríir dagar og sól fer hækkandi á lofti!

Með bestu kveðju, stjórnendur