Miðvikudagspósturinn 15. apríl

Kæru nemendur og aðstandendur

Vonandi komið þið öll endurnærð úr páskafríinu og tilbúin í endasprettinn sem nú stendur fyrir dyrum á seinni hluta vorannar!

Nú liggur fyrir að fyrirhugað er að slaka á viðmiðum varðandi sóttvarnir í framhaldsskólum frá og með 4. maí næstkomandi. Þetta eru vissulega góðar fréttir en skólinn mun þó sem fyrr starfa áfram í fjarkennsluumhverfi. Með umræddum tilslökunum opnast þó vissulega möguleikar á því að veita nemendum betri þjónustu og mun skólinn skoða þau mál vandlega þegar nær dregur og fyrir liggur nákvæmlega hvernig reglurnar verða útfærðar. Hins vegar  ber að halda því til haga að væntanlegar tilslakanir gefa engan veginn tilefni til þess að nemendur séu almennt boðaðir í skólann, hvort sem er til kennslu eða próftöku. Stefna skólans er því óbreytt. Fjarkennsla verður áfram út önnina, áherslan verður áfram á símat og verkefnamiðað nám jafnframt því að halda festu í skólastarfinu. Skóladagatalið  mun því gilda út önnina og sömuleiðis er gert ráð fyrir því að stundatöflur nemenda og fyrirliggjandi námsáætlanir verði áfram ramminn utan um námið.

Eins og forsætisráðherra talaði um erum við búin að ná langt á veg í glímunni við veiruna og líkingin við fjallgöngu er viðeigandi, við nálgumst takmarkið en það er einmitt síðasti spölurinn upp á topp og svo niðurgangan sem reynist mörgum fjallgöngugarpinum skeinuhættust. Því er nú afar brýnt að við notum þessar tæpu sex vikur sem eftir eru til hins ýtrasta, komumst sem fyrst á góðan skrið í náminu og höldum dampi út önnina.
Við bendum í lokin á fróðlega grein sem birt var nýlega á vísi.is en þar er bent á ýmis hollráð til að ná sér á strik eftir slökun páskafrísins:
https://www.visir.is/g/2020143178d/ad-komast-i-rutinu-a-ny-eftir-paskafri
Bestu kveðjur
Stjórnendur MS