Miðvikudagspósturinn 1. apríl 2020

Kæru nemendur og aðstandendur!

Nú hefur skólinn starfað í nýju námsumhverfi í tvær kennsluvikur og páskafrí framundan. Á hverjum degi hafa komið fram ný viðfangsefni fyrir starfsfólk skólans og við höfum leitast við að leysa málin og halda skólastarfinu eins formföstu og kostur er. Ein helsta áskorunin í skólastarfinu er að halda takti þrátt fyrir þá miklu óvissu sem ríkir í samfélaginu. Ef marka má þær upplýsingar sem skólinn hefur aflað sér bendir allt til þess að enn sem komið er hafi skólastarfið gengið vonum framar og eiga nemendur og heimilin stóran þátt í þeim mikilvæga árangri!

Nú stöndum við hins vegar á ákveðnum tímamótum, páskafrí stendur fyrir dyrum og skólastarfið leggst því í dvala þar til kennsla hefst að nýju miðvikudaginn 15. apríl næstkomandi. Reynslan sýnir að rútínan sem skólinn veitir sínum nemendum er mörgum mikilvæg og uppbrotið í kringum jól og páska geta reynst sumum nemendum mikil persónuleg áskorun, leiða má líkum að því að sjaldan hafi áhættan á slíku verið meiri en einmitt núna. Skólinn mun á næstu dögum fara í viðamiklar aðgerðir í eftirfylgni og leita allra leiða til að ná til þeirra nemenda sem koma illa út úr miðannarmati og hafa ekkert eða lítið samband haft við sína kennara. Er það von okkar að enginn verði skilinn eftir og allir okkar nemendur fái næg tækifæri til að ná sér á strik í náminu, samstarf heimila og skóla er sem fyrr afar mikilvægt.

Hér eru nokkur atriði sem við viljum minnast á:

Skólinn hefur einsett sér að leita allra leiða til að halda starfinu gangandi og ljúka vorönn 2020 samkvæmt skóladagatali í maí. Skólinn gerir ráð fyrir því að fjarnámsumhverfið haldi áfram að loknu páskafríi og verða nemendur upplýstir sérstaklega með góðum fyrirvara verði breyting þar á. Markmið okkar er að þeir nemendur sem sinna fjarnáminu vel geti tekist á við námið af fullum krafti þegar skólastarf fer aftur í fyrra horf.

Nemendur fengu í gær sendan link til að taka þátt í nemendakönnun. Markmiðið er að afla frekari upplýsinga til að bæta skólastarfið, því biðjum við alla nemendur að taka sér tíma og vera með!

Námsráðgjafar eru til staðar fram að páskafríi og hvetjum við nemendur sem þurfa ráðgjöf og stuðning að hafa samband við þær sem fyrst.

Námsráðgjafar hafa sett upp padlet vef sem inniheldur gagnlegt efni fyrir nemendur og aðstandur þeirra. Vefur inn er uppfærður reglulega: https://padlet.com/hildurhg/ms?fbclid=IwAR1IsNBEwDWWmUJcUdTCXrmSKSYqiquNJZAM1YEPKO9i7_KEHsPUt73347M

Við biðjum nemendur að virða fyrirmæli frá sóttvarnarlækni í náminu. Hópvinnu á alla jafnan að vinna í gegnum netið og ef nemendur þurfa nauðsynlega að hittast að gera það eins sjaldan og hægt er í smáum hópum (t.d. tveggja manna).

Nauðsynlegt er að allir nemendur hafi tæknilegar forsendur til að sinna fjarnámi. Komi upp vandamál varðandi tæknihliðina viljum við fá upplýsingar um það strax. Skólinn er með tæknimenn sem sinna þessum málum og er hægt að leita til þeirra (senda má póst á tolvuumsjon@msund.is ).

Hreyfing og virkur lífsstíll eru gríðarlega mikilvægur þáttur við þær aðstæður sem við búum nú við. Við minnum á að íþróttakennarar eru til taks og velkomið að hafa samband við þau ef nemendur vantar hvatningu og ráðgjöf.

Miðannarmat mun birtast í Innu á morgun (sjá nánar: https://www.msund.is/namid/namsmat-og-einkunnir). Við hvetjum nemendur og aðstandendur þeirra til að fara vandlega yfir það og bregðast við sé þess þörf.

Nemendur eru hvattir til að leggja sig fram um að koma sér upp ákveðinni rútínu og halda henni í páskafríinu. Reglulegur svefn, hreyfing, slökun og krefjandi viðfangsefni yfir daginn eru góð leið til halda orkustiginu uppi og gera okkur auðveldara að fara aftur á stað af fullum krafti þegar skólastarfið fer aftur í gang eftir páskafrí!


Við þökkum nemendum og aðstandendum gott samstarf á krefjandi tímum og vonumst eftir því að næstu vikur færi okkur betri tíð.

Stjórnendur og námsráðgjafar MS