Kæru nemendur og aðstandendur
Tíminn líður hratt þessa dagana, við erum komin á endasprettinn á vorönn og álag á nemendur jafnt sem starfsfólk fer vaxandi. Nú eru aðeins fimm kennsludagar eftir af vorönn en ekki má gleyma því að matsdagar í lok annarinnar verða óvenju annasamir að þessu sinni. Námsmat er í eðli sínu nokkuð afturþungt þar sem stór verkefni, samantekt á ástundun og próf eiga sér oft stað í lokin þegar nemendur hafa náð tökum á hæfniviðmiðum sinna áfanga. Því má gera ráð fyrir því að enn sé talsvert undir í námsmatinu og því full ástæða til að láta hendur standa fram úr ermum og gera sitt allra besta. Í þessu samhengi viljum við nota tækifærið og benda á stutt hvatningarmyndband frá nýkjörnum ármanni SMS, Grími Garra: https://www.youtube.com/watch?v=BGbcTthhoWg
Þið hafið staðið ykkur með mikilli prýði hingað til og er það okkar trú að þið hafið eflst við hverja raun á þeim erfiða tíma sem vonandi er senn að baki. Að sjálfsögðu standa nemendur misvel að vígi gagnvart þeim óvæntu og skyndilegu breytingum sem urðu á námsumhverfi skólans en með seiglu og jákvæðni að leiðarljósi er hægt að sigrast á flestum hindrunum. Við viljum hvetja ykkur öll til að halda áfram af fullum krafti og klára önnina, það skiptir miklu máli að gera sitt allra besta og skila öllum verkefnum af bestu getu, það gefur kennurum efnivið til að rýna í hæfni sinna nemenda í annarlok. Því meira sem nemendur sýna og skila því betur geta kennarar lagt mat á stöðuna og metið nemendur. Við viljum tryggja að okkar nemendur fái sanngjarnt og hlutlægt námsmat, sérstaklega núna þegar staðnám er ekki í boði. Við finnum fyrir því þessa dagana að með vaxandi álagi í náminu vex freistingin til að stytta sér leið, akademískur heiðarleiki er eitt af því mikilvægasta sem við viljum innræta okkar nemendum og hvetjum við ykkur öll til að vanda til verka og sýna metnað í verkefnavinnunni. Það er áríðandi fyrir alla þá sem vilja taka þátt í samfélaginu að temja sér vönduð vinnubrögð og akademísk gildi, sérstaklega er þetta þó nauðsynlegt fyrir þá sem hyggja á nám í háskóla. Sjá nánar: https://www.ru.is/namid/reglur/reglur-um-verkefnavinnu/
Kennslukönnun er nú í gangi, við hvetjum alla nemendur til að taka sér tíma og vera með í henni. Þau gögn sem við fáum með þessum hætti eru notuð til að bæta skólastarfið og því er góð þátttaka nemenda afar jákvæð fyrir skólann. Í lokin minnum við á þjónustu námsráðgjafa. Ef það er eitthvað sem þið viljið fá aðstoð með varðandi námið ekki hika að hafa samband við Björk (bjorke@msund.is) og óska eftir pósti/símtali.
Bestu kveðjur Stjórnendur MS