METOO umræða á skólafundi 10.1.2018

Skólafundur var haldinn miðvikudaginn 10.1.2018 og á dagskrá voru eftirfarandi mál:

1. Námskrár Menntaskólans við Sund

2. Fjármál og rekstur skólans

3. MeToo umræðan og Menntaskólinn við Sund.

4. Önnur mál

Már Vilhjálmsson rektor opnaði umræðuna um MS og MyToo hreyfinguna og flutti eftirfarandi ávarp:

Síðustu vikur, hafa með vaxandi þunga, dregið fram í dagsljósið kynbundið ranglæti, áreitni og ofbeldi í samtímanum. Það hefur ekki komið sá dagur síðustu vikurnar án þess að þessi mál hafi verið áberandi í umræðunni. Þetta er afar sérstakt, því reynslan kennir okkur að það vantar oft seiglu til þess að fylgja málum eftir og halda áfram málefnalegri umræðu, einkum þegar sumum þykir nóg komið og annað sé orðið mikilvægara eða ferskara. Þessi staðreynd gefur okkur vonir um að umræðan hafi haft djúpstæðari áhrif á viðhorf almennings en flest annað sem komið hefur í fréttirnar undanfarið. Þetta veit á gott!

Allt hefur þetta gerst undir formerkjum #metoo hreyfingarinnar; hreyfingar sem hófst með einni sögu, en hefur fyrir tilstuðlan ótrúlegrar samstöðu orðið að víðtækri viðhorfsbyltingu um allan hinn vestræna heim.

Það eru því töluverð tíðindi að umræðan í samfélaginu skuli hafa snúist um þessi alvarlegu mál í jafnlangan tíma og verið hefur og vitnar það vonandi um að umburðarlyndi eða aðgerðarleysi gagnvart kynbundnu ofbeldi, áreitni, einelti eða annarri ósæmilegri hegðun verði loks útrýmt.

Við í MS þurfum án vafa, eins og flestir aðrir, að horfa í eigin barm og gera það sem við getum til þess að óréttlæti og vanvirðing verði ekki liðin hér frekar en annars staðar. Okkar hlutverk er líka að leggja okkar af mörkum til að hafa áhrif á viðhorf og skoðanir ungs fólks á því hvað telst eðlilegt og í lagi og hvað ekki. Nýja námskráin okkar gerir ráð fyrir þeirri umræðu og það má sjá í lýsingum nokkurra námsáfanga. Það eitt er gott en engan veginn nægjanlegt.

Því þótt aldrei sé hægt að koma endanlega í veg fyrir ofbeldi eða áreitni, er sannarlega hægt að sýna samfélagslega samstöðu um að slíkt sé ekki liðið – að réttlæti sé leiðarljós gagnvart þeim sem hafa verið jaðarsettir, kúgaðir eða beittir ofbeldi vegna kynferðis eða kyngervis. Áreittir, kúgaðir, misbeittir vegna þess að þeir tilheyra einhverjum minnihlutahóp eða eru á einhvern hátt „öðruvísi“, Hvað sem það nú þýðir.

Staðreyndin er sú að konur á öllum aldri og ekki síst ungar konur, búa nánast alls staðar við virðingarleysi, fordóma, áreitni og ósæmilega hegðun í sínu starfsumhverfi. Þjóðfélagið allt hefur látið ótalmargt viðgangast um langan tíma og þó svo að við eigum okkur fallega tungu þá er í íslenskunni að finna ótal orð sem eiga alls ekki lengur við í því þjóðfélagi sem við búum í dag og hafa ef til vill aldrei verið viðeigandi. Þá er það mér óskiljanlegt að þrátt fyrir ótal ræður um óréttlætið og mismunina sem felst í kynbundnum launamun þá er hann enn víða. Það er þessi skortur á samhug, sanngirni og virðingu sem er vandamálið. Áreitni og ofbeldi, hvers konar, er er ekki alltaf tengt misbeitingu á konum því fjölmargir karlar hafa einnig sorglegar sögur að segja.

Málið er að það á ekki að skipta neinu máli í samskiptum hver við erum. Það eina sem á að skipta máli er hvernig við erum og hvernig við komum fram og hvort við njótum sanngirni og sannmælis fyrir það.

Það segir þó sína sögu um kerfislæga kvenfyrirlitningu að nánast hver einasta kona skuli hafa slíka sögu að segja. Sögur um glæpi, misnotkun, misrétti og óvirðingu.

Ég held að það sé okkur hollt og gott að taka þessa umræðu upp hjá okkur í MS. Við eigum að líta í eigin barm og við eigum að geta rætt um það sem miður fer. Við þurfum að hafa þetta þannig að umræðan um þessi viðkvæmu mál sé eðlileg, að ferlar svona mála séu vel skilgreindir og við séum óhrædd að stíga fram, segja okkar sögu, benda á það sem má betur fara og krefjast bóta. Þó þarf að gera þetta án þess að við séum hunsa lög, reglur og réttarkerfið í heild sinni. Tepruskapur og ofursiðvendi er önnur hlið á þessu og ekki eftirsóknarverð. Við þurfum fyrst og fremst að leggja okkar á vogarskálarnar til að breyta viðhorfi umræðunnar. Við þurfum að gera hana betri.

Hvað nú?

Í ljósi þess vil ég segja að ofbeldi á borð við það sem #metoo hreyfingin hefur afhjúpað verður hvorki þaggað niður eða umborið” í MS. Við eigum okkar einkunnarorð sem eru: virðing, jafnrétti, ábyrgð og heiðarleiki. Ef við tökum þau einkunnarorð alvarlega mun okkur reynast auðveldara að eiga við svona ofbeldi og þá verðum við sjálf betur undirbúin fyrir það að leiðbeina okkar nemendum á vegferð þeirra til þroska og þátttöku í þjóðfélaginu. Þá verðum við sjálf betri í okkar samskiptum.

Það er þó ekki nóg að mínu viti að ræða bara um þetta og vera góðar fyrirmyndir. Við höfum t.d. rætt þessi mál á fundum stjórnenda. Við höfum lesið og fylgst með því hvernig tekið er á þessum málum og reynt að meta hvað má læra af því.

Ég legg því til að við stofnum hóp hér í MS með fulltrúum starfsmanna, bæði kennara, stjórnenda og þjónustusviðs. Þar væru einnig fulltrúar nemenda og foreldra. Hlutverk þessa hóps væri þá helst að leiða umræðuna, koma með tillögur og ábendingar og aðstoða skólann við að setja ramma fyrir það sem við viljum gera í þessum málum. Verði þetta niðurstaða okkar þá legg ég til að við fáum til liðs við okkur sálfræðing sem hefur unnið að þessum málum undanfarið til þess að gefa okkur góð ráð. Ég hef þegar tryggt okkur slíkan stuðning sálfræðings ef við viljum þiggja hann. Hvert þetta svo leiðir okkur verður að koma í ljós.