Menntaskólinn við Sund hlaut í dag afhenta viðurkenningu umhverfisráðherra fyrir að hafa tekið græn skref í ríkisrekstri. Með viðurkenningunni er staðfest að skólinn hafi uppfyllt skilyrði sem sett eru fyrir fyrstu tvö skrefin. Viðurkenning sem þessi er skólanum mikilvægur hvati á leiðinni til grænni lífsstíls en áherslur skólans í umhverfismálum birtast orðið í allri starfsemi skólans. Við stefnum ótrauð að því að ljúka næsta skrefi á þeirri vegferð okkar að efla umhverfisvitund okkar og þeirra sem taka munu við.
Ræða rektors MS við afhendingu viðurkenningar á grænum skrefum:
Eins og allir vita eru áhrif mannsins á umhverfið mikil og jafnvel töluvert meiri en margir hafa haldið eða viljað trúa. Undanfarið hefur umræðan um loftslagsmálin yfirgnæft allt annað í umhverfismálunum. Það er skiljanlegt. Þar verður sannarlega að bregðast hratt við og það með mjög afgerandi hætti.
Jarðsagan sýnir okkur að náttúrulegar umhverfissveiflur geta verið miklar. Algjörlega sambærilegar við það sem nú er að gerast, með tilheyrandi áhrifum á allt lífríkið. Sveiflur sem höfðu afar afgerandi áhrif á loftslag og hafstrauma, efnahringrásir í náttúrunni og sem ollu massadauða lífvera eins og varð á Perm tímanum og í lok Krítar með tilheyrandi gjörbreytingu á lífríkinu á þeim tíma. Þetta voru breytingar sem urðu löngu fyrir daga mannsins en eftir því sem við rannsökum þau mál nánar þá verður okkur æ ljósara að hraði breytinganna var miklu meiri en talið var fyrir örfáum áratugum síðan. Erum við jafnvel að tala um sveiflur sem taka áratugi en ekki aldir eða þúsundir ára.
Náttúran er því síkvikul og flókin. Mennirnir eru hluti náttúrunnar en hlutverk þeirra og áhrif á ferla náttúrunnar er meira en við höfum áður séð varðandi einstakar tegundir. Engin tegund í sögu jarðar hefur haft jafn mótandi áhrif á umhverfið og maðurinn. Við höfum lagt undir okkur stærsta hluta þurrlendis og mótað það með ræktun, áburðagjöf og vökvun. Við höfum með veiðum afgerandi áhrif á stofnstærðir lífríkis sjávar. Við göngum nánast óígrundað á fjölbreytt vistkerfi og breytum þeim algjörlega með einhæfri nýtingu. Við breytum landi með byggingum og öðrum mannvirkjum og með nýtingu náttúruauðlinda eins og málma, jarðefna, jarðefnaeldneytis og svo mætti lengi telja. Við erum stórneytendur og göngum nánast hömlulaust á auðlindir jarðar með tilheyrandi afleiðingum. Mikilli neyslu okkar fylgir mikil losun gróðurhúsalofttegunda og annarra mengandi efna. Mikilli neyslu fylgir líka mikil losun úrgangs sem hefur í för með sér afar skaðleg áhrif á umhverfið. Flestum er að verða ljóst að plastefni, eins góð og þau eru til ýmissa nota, eru farin að valda þvílíkum skaða á umhverfinu þvert á allt lífríkið. Jafnvel hin „græna orka“ okkar Íslendinga er ekkert sérstaklega græn. Vatnsaflsvirkjunum og uppistöðulónum þeirra fylgir rask og breytingar á náttúrunni. Jarðvarmavirkjanir eru langt í frá að vera mengunarlausar og þar eru líklega verst ýmiss konar brennisteins- og klórsambönd sem geta verið verulega skaðleg. Jafnvel, þó svo að þau séu að finna í litlu magni. Svona má lengi telja upp og það má endalaust velta því fyrir sér hvað er verst og hvað ekki. Niðurstaðan er þó alltaf sú sama: Mannkynið veldur áður óþekktum áhrifum á vistkerfi jarðarinnar. Áhrifum sem valda svo örum breytingum á náttúru jarðar að jafna má við verstu hamfarir í sögu jarðar. Massadauðinn nú gæti jafnast á við fyrri massadauða við aldaskil í sögu jarðar. Mannkynið á bara eitt augnablik í sögu jarðarinnar en ef við tökum okkur ekki tak þá verða skaðleg áhrif okkar á jörðina mun langvinnari en líftími mannkynsins.
Það er vakning í umhverfismálum. Við í MS höfum þegar tekið nokkra ábyrgð og reynt að leggja okkur fram um að fræða og miðla þekkingu í umhverfismálum áfram til þeirra sem taka við. Við erum með umhverfisfræði sem skyldunámsgrein fyrir alla. Við kennum lýðræðisvitund og siðfræði. Við reynum að nýta hluti vel og endurnýta það sem hægt er. Við höfum markvisst reynt að draga úr orkunotkun og sama á við um losun á úrgangi. Við flokkum og skilum og við erum að setja af stað metnaðarfullt verkefni sem gengur út á það að draga úr kolefnisspori okkar. Við færum grænt bókhald og við fylgjumst náið með hvernig gengur. Við gerum því margt í þessum efnum. En ef við erum hreinskilin þá verðum við líka að játa að við erum umhverfissóðar. Kannski ekki eins miklir og áður en við getum sannarlega gert mun betur.
Umhverfisstofnun og hennar sérfræðingar hafa reynst okkur afar góðir samstarfsaðilar og ráðgjafar, en þangað höfum við bæði sótt þekkingu, ráðleggingar og stuðning. Verkefnið Græn skref í ríkisrekstri er kærkomið verkefni á þessari vegferð okkar að grænni lífstíl. Með því að taka þátt í svona verkefni fáum við nauðsynlegt aðhald og mat á þeim árangri sem við erum að ná. Við erum líka með þessu að gefa skýr skilaboð út í þjóðfélagið og þau eru: Menntaskólinn við Sund lætur sig umhverfismálin varða og vill leggja sitt af mörkum til þess að koma fræðslu um þau mál áfram. Það gerum við í gegnum námið og með því að vera sjálf góðar fyrirmyndir.
Það verður spennandi að vinna í því að uppfylla ákvæði næsta skrefs í þessu verkefni en þangað stefnum við óhikað.
Takk fyrir viðurkenninguna og allan stuðninginn.