Kvennaverkfall 24. október 2023

Þriðjudaginn 24. október verður kvennaverkfall þar sem konur og kvár eru hvött til að leggja niður störf og knýja þannig á um fullt jafnrétti í íslensku samfélagi. Menntaskólinn við Sund styður að sjálfsögðu mótmælin og hvetur starfsfólk og nemendur af öllum kynjum til að taka þátt í samstöðufundi á Arnarhóli kl. 14.

Viðbúið er að einhverjir tímar falli niður og nemendur þurfa að fylgjast vel með tilkynningum frá kennurum í INNU. Húsnæði skólans verður opið og gert er ráð fyrir því að karlmenn mæti til starfa og sinni þeim eftir bestu getu. Það má gera ráð fyrir því að mötuneyti verði lokað, ekki svarað í síma og að skólinn verði ekki þrifinn enda konur sem sinna þessum störfum.

Nemendur sem taka þátt í verkfallinu þennan dag fá ekki fjarvist.