Kvennafrídagurinn

Kvennafrídagurinn var haldinn í fyrsta sinn á Íslandi 24. október árið 1975, en Sameinuðu þjóðirnar höfðu helgað það ár málefnum kvenna. Íslenskar konur komu saman á fundum um land allt en sá fjölmennasti var á Lækjartorgi í Reykjavík, en þann fund sóttu um 25 þúsund konur. Vakti samstaða íslenskra kvenna heimsathygli. Langflestar konur lögðu niður störf þennan dag og lamaðist atvinnulífið í landinu að mestu leyti. Dagurinn er ekki lögbundinn frídagur en er þó ávallt kallaður kvennafrídagurinn.  Menntaskólinn við Sund vekur athygli á því að þó svo að fjölmargt hafi áunnist í jafnréttisbaráttunni á undanförnum áratugum þá er fjölmargt eftir og í reynd mun baráttunni fyrir jafnrétti og jöfnum tækifærum aldrei ljúka. Skólar geta lagt sitt á vogarskálarnar með fræðslu um jafnréttismál og með því að gæta sjálfir að jafnrétti í sínu starfi. Aðeins þannig geta þeir skapað gott fordæmi.

Sjá nánar um kvennafrídaginn árið 1975: http://kvennasogusafn.is/index.php?page=kvennafri-1975