Vegna umfjöllunar fjölmiðla í dag vill starfsfólk Menntaskólans við Sund koma því á framfæri að kennsla fer fram í húsnæði skólans við Gnoðarvog á komandi skólaári.
Viðgerðir vegna rakaskemmda fóru fram á milli vetrar- og vorannar 2023 og búið er að gera ráðstafanir svo skólastarf sé tryggt í húsnæðinu út yfirstandandi skólaár. Þegar skóla lýkur í vor verður farið í frekari úrbætur. Ljóst er að til lengri tíma litið þarf að fara í víðtækari endurbætur á eldra húsnæði skólans sem ekki hafa verið tímasettar.
Eins og við höfum fullvissað nemendur okkar um í dag og undanfarna daga þá er ekkert að óttast fyrir núverandi og verðandi nemendur okkar. Einnig er ljóst að umræður undanfarið um sameiningu framhaldsskóla hafa hvorki áhrif á skipulag náms nemenda við skólann né á nám nýnema sem innritast í vor, samanber fréttatilkynningu mennta- og barnamálaráðuneytis frá 28. apríl sl.: „Niðurstaða viðræðna mun ekki hafa áhrif á skipulag eða innihald náms á komandi skólaári hjá nemendum og starfsfólki skólanna og heldur ekki hjá þeim nýnemum sem innritast í skólana í vor.“
Upplýsingar um innritun nýnema má finna á heimasíðunni undir Kynningarefni. Nemendur í 10. bekk sækja um í gegnum Menntagátt og er opið fyrir umsóknir til 8. júní næstkomandi.
Velkomin í MS!