Innritun nýnema er lokið að þessu sinni

 Innritun nýnema fyrir næsta skólaár er nú lokið. Nemendum var gefið raðnúmer á grundvelli einkunna þeirra úr grunnskóla og síðan voru gögn skólans send Advania til miðlægrar keyrslu. MS flokkaði umsóknir  út frá því hvort nemendur uppfylltu inntökuskilyrðin um B í kjarnagreinunum, þ.e.a.s. í íslensku, stærðfræði og ensku. Flokkað var eftir einkunnum í  íslensku,ensku og stærðfræði og síðan var greint á milli nemenda í hverjum flokki út frá einkunnum í dönsku, samfélagsfræði og náttúrufræði. Nánar er gerð grein fyrir úrvinnslu einkunna her á heimasíðu skólans. [https://www.msund.is/fraedsluefni/kynningarefni-fyrir-grunnskolanemendur-og-forradamenn/umsoknir-og-inntokuskilyrdi]

Að þessu sinni voru umsóknir mun fleiri en laus pláss og því þurfti all háar einkunnir til að komast að. Það voru jafnmörg laus pláss á hvorri braut.  Það  þurfti að lágmarki B+, B, C+ í kjarnagreinunum íslensku, ensku og stærðfræði á náttúrufræðibrautinni á meðan B,B,C+ dugði í sömu greinum inn á félagsfræðabrautina. 

Alls voru innritaðir 214 nýnemar og hefur skólinn ekki heimild fyrir fleiri nemendum. Ef einhverjar hreyfingar verða á þeim nemendum sem hafa fengið skólavist í MS verða þær skoðaðar í ágúst rétt fyrir upphaf haustannar en engir biðlistar verða þó gerðir.