Girl2Leader

Dagana 28.-30, nóvember fór fram í Hörpu alþjóðlegt kvennaþing, Women Political Leaders Global forum, þar sem mikill fjöldi þingkvenna kom saman. Frú Vigdís Finnbogadóttir var m.a. heiðruð fyrir störf sín á svið stjórnmálanna. Á þinginu voru fjölmargar áhrifamiklar stjórnmálakonur erlendar sem innlendar. Þar var kynnt verkefni sem kallast Girl2Leader sem ætlað er að hvetja stelpur og ungar konur til að taka þátt í stjórnmálum og láta rödd sína heyrast. Það er skemmtilegt að geta sagt frá því að Menntaskólinn við Sund átti fulltrúa á þessu þingi og mun hún taka þátt í þessu verkefni. Lenya Rún Taha Karim tók þátt og þetta sagði hún um upplifun sína: 

 „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á stjórnmálum og því var gaman að taka þátt í þessu. Á þinginu voru margar konur sem voru að segja sögu sína af stjórnmálaþátttöku. Allar höfðu þær átt erfitt uppdráttar í stjórnmálum en sögðu mikilvægt að gefast ekki upp, því ein kona á þingi væri betri en engin. Þetta hefst allt með smáum skrefum og stefnum við að jafnrétti. Mér fannst mikið til þeirra komið og sérstaklega fannst mér gaman að hitta frú Vigdísi og svaraði hún spurningu minni um það hvort hún teldi að forsetatíð hennar hefði haft áhrif á stöðu kvenna í stjónmálum játandi. Mér finnst svo frábært að fá tækifæri til að koma að þessu verkefni því nauðsynlegt er að efla ungar stúlkur og konur til þátttöku í stjórnmálum, því þeirra rödd verður að heyrast. Ég lagði til við Kolbrúnu Hrund Sigurgeirsdóttur, verkefnastýru jafnréttismála Skóla- og frístundarsvið Reykjavíkurborgar, að við myndum stofna ungmennaráð Women Political Leader sem hún tók mjög vel í það og ætlar að koma hugmynd minni á framfæri. Sjálf er ég að velta fyrir mér að hafa samband við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og segja henni frá hugmyndinni.  Mig langar að hvetja allar stúlkur til að taka sér stöðu, kynna sér samfélagsmálin fyrst og fremst til að vera vel upplýstar en ekki síður til að auka áhuga þeirra á stjórnmálaþátttöku. Það skipti öllu að hafa konur til jafns við karla á þingi.“