Fróðleikur dagsins - Húsageitungar

Á vef Náttúrufræðistofnunar er að finna eftirfarandi fróðleik sem tengist sögu MS: Húsageitungur á sér brotakennda sögu hér á landi. Slíkur fannst í Reykjavík í janúar 1937 og var fullvíst talið að um slæðing hefði verið að ræða. Náttúrugripasafninu á Akureyri, sem svo hét þá, barst eintak sem fannst þar í bæ veturinn 1967 og fylgir því ekki frekari saga. Síðan uppgötvaðist það haustið 1973 að húsageitungar höfðu komið sér fyrir með búskap í Menntaskólanum við Tjörnina sem var til húsa í Miðbæjarskólanum gamla í miðborg Reykjavíkur. Það var í fyrsta skipti sem geitungar fundust með bú hér á landi og urðu til óþurftar, en ónæði varð nokkuð af þeirra völdum í kennslustundum. Upp frá þessu fóru húsageitungar að finnast því sem næst árlega í Reykjavík og síðar í nágrannasveitarfélögum; í Hafnarfirði 1978, Garðabæ 1987, Kópavogi 1990 og á Seltjarnarnesi 1997. Þá fannst húsageitungur á Reyðarfirði í janúar 1997 en sá barst þangað með vörum frá Reykjavík. 

(https://www.ni.is/biota/animalia/arthropoda/hexapoda/insecta/hymenoptera/vespidae/vespula-germanica)