Fjarnám í Menntaskólanum við Sund frá og með mánudeginum 16. mars

Kæru nemendur og foreldrar/forráðmenn nemenda við Menntaskólann við Sund. 

Stjórnvöld hafa sett samkomubann næstu fjórar vikurnar og ákveðið að loka framhalds- og háskólum. Því liggur fyrir að skólinn þarf að endurskipuleggja starf sitt vegna dreifingar kórónuveirunnar til þess að draga úr líkum á smiti og því verður, frá og með mánudeginum 16. mars, öll kennsla í Menntaskólanum við Sund fjarkennsla. Afar mikilvægt er að allir starfsmenn MS, nemendur skólans og forráðamenn þeirra geri allt sem í þeirra valdi er til þess að nám nemenda geti farið fram þó svo að það sé með breyttu sniði.

Afar mikilvægt er að allir taki höndum saman (þó án þess að snertast) og sýni jákvæðni, ábyrgð og vilja til þess að hugsa út fyrir rammann. Þó svo að bæði kennslan og námshættir breytist við þetta eru sömu eða sambærilegar kröfur gerðar til nemenda í einstökum áföngum. Nemendur og kennarar eru því beðnir um að huga vel að þekkingar, leikni og hæfniviðmiðum hvers áfanga.

Fyrirmæli yfirvalda

Samkomubann: Heilbrigðisráðherra ákvað að frá og með mánudeginum 16. mars verði samkomubann í gildi á Íslandi og tekur það til allra samkoma þar sem fleiri en 100 koma saman og þá eru settar hömlur á fámennari samkomur þannig að minnst 2 metrar verði á milli manna.

Lokun framhaldsskóla og háskóla: Ráðherra tilkynnti að framhaldsskólar og háskólar yrðu lokaðir frá sama tíma næstu fjórar vikurnar hið minnsta en skólastarfi yrði þó haldið áfram með fjarkennslu.

Aðgerðir skólans

Aðgerðir skólans miða að því að sem allra minnst rask verði á námi nemenda. Starfsmenn skólans verða áfram með sínar starfstöðvar í skólanum og skil á verkefnum verða í samræmi við reglur og áætlun eins og hún birtist á námsáætlunum nemenda.

Fjarkennsla Námsnetið (innra námskerfi skólans) er grunnurinn að samskiptum í fjarnáminu og þurfa nemendur að að nota það og tölvupóstinn í þeim samskiptum. Önnur forrit, sem hver og einn kennari kann að ákveða verða síðan notuð í einstökum áföngum og svo er INNA upplýsingakerfi framhaldsskólanna. Gert er ráð fyrir að sem allra minnst röskun verði á skipulagi stundatöflu nemenda. Stundataflan er því látin halda sér og gert er ráð fyrir að skiladagar og skilatímar verkefna verði á þeim tíma sem viðkomandi hafi átt að vera í tíma skv. eldri áætlun. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir árekstra og ójafna dreifingu vinnuálags hjá nemendum.

Stuðningur og þjónusta

Stuðningur og þjónusta við nemendur verður fyrst og síðast með rafrænum hætti. Námsráðgjafar skólans taka ekki á móti nemendum eða forráðamönnum í viðtal en sinna ráðgjöfinni með rafrænum hætti og í síma. Netföng námsráðgjafa skólans eru: bjorke@msund.is og hildurhg@msund.is . Björk er með símann 5807315 og Hildur Halla er með númerið 5807316. Engin breyting er gerð á þjónustutíma námsráðgjafar í MS.

Breytingar á námsáætlunum Búast má við einhverjum breytingum á námsáætlunum í einstökum áföngum. Þær breytingar verða kynntar á Námsnetinu hjá kennara hvers hóps. Nemendur þurfa að kynna sér þessar breytingar afar vel og haga námi sínu í samræmi við nýja útgáfu námsáætlunar.

Námsmat Gera má ráð fyrir því að einhverjar breytingar verði gerðar á námsmati einstakra áfanga auk þess sem námsmatsþátturinn „Virkni og mæting“ verður endurskoðaður í öllum áföngum. Gerð verður grein fyrir þessum breytingum á Námsnetinu hjá hverjum og einum kennara.

Ábyrgð nemenda og forráðamanna þeirra

Þrátt fyrir mikið rask og miklar breytingar sem fylgja samkomubanni yfirvalda og þrátt fyrir þá staðreynd að farið verður frá staðbundnu námi yfir í fjarnám næstu fjórar vikurnar hið minnsta þá bera nemendur engu að síður ábyrgð á eigin námi. Þeir þurfa því að sýna mikinn aga, iðni og dugnað við þessar nýju aðstæður til þess að þeim vegni vel í náminu. Foreldrar og forráðamenn þurfa því að koma til og veita nemendum bæði það aðhald og stuðning sem þeir ráða við á meðan þetta ástand varir.

Að vera í fjarnámi í MS  Það að vera í fjarnámi krefst góðs skipulags, einbeitingar og iðni. Til þess að gera þetta eins auðvelt og hægt er hvetur skólinn nemendur til þess að fylgja í einu og öllu fyrirmælum kennara. Að vera óhræddir við að bera fram spurningar þegar eitthvað er óljóst og gæta alltaf að því að fylgjast vel með öllu sem kemur fram frá kennaranum.

Kröfur til nemenda Námskröfur eru í grunninn óbreyttar en mæliaðferðir kennarans á því hvernig nemendur ná fram markmiðum áfangans munu eðlilega breytast í fjarnáminu. Kröfur um heiðarleg vinnubrögð eiga ekki síður við í fjarnámi en staðbundnu námi og gert er ráð fyrir að nemendur virði í einu og öllu ákvæði um höfundarétt.

Samskipti við kennara Eins og fram hefur komið ber nemandinn ábyrgð á því að fylgjast vel með öllu sem kemur frá kennaranum og grunnforritin sem verða í þeim samskiptum eru tölvupósturinn, INNA og svo síðast en ekki síst Námsnetið. Önnur forrit verða síðan notuð af einstökum kennurum og því þurfa nemendur að fylgjast afar vel með og halda sinni daglegu rútinu eins vel og hægt er.

Námskröfur Sjá nánar í endurskoðuðum námsáætlunum einstakra áfanga.

Skil verkefna og breytingar á verkefnum Kennari upplýsir nemendur um helstu breytingar í endurskoðaðri námsáætlun og svo í samskiptum sínum við þá í gegnum þau forrit sem eru notuð í fjarkennslunni.

Stuðningur foreldra/forráðamanna  Foreldrar og forráðamenn geta sent erindi á skólann á netfangið msund@msund.is óski þeir eftir skýringum eða aðstoð. Reynt verður að bregðast við þannig beiðnum fjótt og innan lögmæts tíma.

Mikilvægi samstöðu og vilja til þess að takast á við breytingar

Breytingar sem verða nú á starfi skólans eiga sér ekki fordæmi. Þó svo að innan skólans sé ekki mikil hefð fyrir fjarkennslu þá er til staðar í MS gífurleg reynsla í því að takast á við róttækar breytingar. Þessi reynsla er hjá starfsfólki skólans en nemendur hans hafa einnig reynslu af annars konar námi og því er engin ástæða til þess að óttast þessar breytingar. Ef við leggjum okkur fram og stöndum saman mun þetta ganga vel.

Bestu kveðjur,  Már Vilhjálmsson rektor Menntaskólans við Sund