Eitt grænt skref MS til viðbótar?

Menntaskólinn við Sund hlaut í vetur viðurkenningu Umhverfisstofnunar fyrir að hafa lokið fyrstu tveimur grænu skrefunum í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri. Skólinn stefnir ótrauður að því að uppfylla skilyrði fyrir þriðju viðurkenningunni og hefur í vetur unnið að frekari umbótum í átt að umhverfisvænni lífstíl. Eftir að við hlutum viðurkenningu fyrir fyrstu tvö skrefin höfum við sett í framkvæmd kolefnisjöfnunarátak með því að stofna sérstakan kolefnissjóð Menntaskólans við Sund en við kolefnisjöfnum nú allar skipulagðar hópferðir á vegum skólans, hvort sem þær eru með flugi eða hópferðabílum. Við höfum einnig bætt við öðrum búningsklefa með sturtuaðstöðu  fyrir þá sem koma með vistvænum hætti til vinnu og von er á yfirbyggðu hjólaskýli með rými fyrir hátt í þrjátíu hjól en þessi aðstaða mun bætast við þá hjólastanda sem eru fyrir í MS og sérstakt geymslurými fyrir reiðhjól starfsfólks.

Skólinn er að láta setja upp hleðslustöðvar fyrir rafbíla í samvinnu við Ísorku á bílastæði við skólann en settar verða upp, í fyrstu lotu, tvær stöðvar þar sem hægt verður að hlaða fjóra bíla í einu. Þessar stöðvar verða komnar upp þegar skóli hefst á ný í ágúst en við göngum þannig frá hlutum að auðvelt verður að bæta við þriðju stöðinni þegar þörfin kallar á það.

Flokkunarílát á sorpi í MS hafa verið frá árinu 2015 í samræmi við reglur og okkur hefur tekist að draga all nokkuð úr úrgangslosun frá skólanum en engu að síður hefur okkur gengið frekar illa að ná okkar eigin markmiðum um hlutfall almenns sorps í heildinni. Þá erum við að fara að taka í notkun nýtt flokkunarílát fyrir gler og steinefni en listgreinakennsla í skólanum kallar á þá endurvinnslu.  Í vetur höfum við, í samvinnu við Gámafélagið, greint vandann og sett upp áætlun um lagfæringar sem nú er komin til framkvæmda. Síðustu tvo mánuði höfum við náð að bæta flokkunina þannig að almennt sorp er nú aðeins um 35% af því sem það var í janúar og febrúar en hlutfall flokkaðs sorps hefur vaxið sambærilega. Takist okkur að halda þessu er markmiðinu sem sett var náð og þá er kominn grundvöllur fyrir okkur að sækja um viðurkenningu ti Umhverfisstofnunar á að hafa lokið þriðja Græna skrefinu í ríkisrekstri. Takist það þá væri það kærkomin afmælisgjöf til okkrar sjálfra á 50 ára afmæli skólans.