15.9.2017: Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur 16. september ár hvert. Þessi dagur er ágætis áminning til okkar um það að við eigum að umgangast náttúruna og umhverfið af virðingu. Það er óhjákvæmilegt í nútíma þjóðfélagi að verðmæti náttúrunnar séu nýtt en það skiptir sannarlega máli hvernig það er gert. Nýting náttúruauðæva er eitt. Hún hefur áhrif á og breytir náttúrulegum ferlum. Sem dæmi þá fylgir allri ræktun lands breyting á lífríki og áhrifin ná einnig til efnaferla og hringrásar vatns. Námavinnsla hefur áhrif á ásýnd lands og oft fylgir henni einhvers konar mengun, stundum mikil og stundum minni.
Nánast öll mannanna verk hafa sýnileg áhrif á náttúruna, stundum til langframa og stundum til skemmri tíma. Oft er margt af því sem er gert er nauðsynlegt, annað er óþarfi og sumt er óskiljanlegt og verulega skaðlegt. Hvert og eitt okkar getur lagt sitt af mörkum til þess að bæta umgengnina við móður náttúru. Hér koma bæði til orð, æði og gjörðir. Menntaskólinn við Sund vill leggja sitt af mörkum til þess að fræða komandi kynslóðir um náttúruna og umhverfið. Þetta gerum við m.a. með öflugri kennslu í náttúrufræðum og umhverfisfræði. Við viljum einnig skila einhverju frá okkur til okkar nærumhverfis þar sem hvert hænuskref skiptir máli. Því mun skólinn leggja sitt af mörkum til þess að farið verði í hreinsunarátak í okkar nánasta nærumhverfi því allt of mikið er um rusl og sóðaskap í borginni. Skólinn hefur þegar hreinsað eigin lóð en nú verður farið út fyrir lóðarmörkin og rusli safnað. jafnframt verður þrýst á borgina að gera átak í því að hreinsa betur rusl á svæðinu. Verði það ekki gert er hætta á að stór hluti þess fjúki á haf út og rati þar inn í lífríkið eða eigi þátt í að gera strandlengjuna okkar eins og ruslahaug. Annað rusl mun grafast í jörðu og valda þar með alvarlegri mengun með tíð og tíma. Göngum því ekki framhjá rusli, beygjum okkur niður og tökum það upp og komum sem mestu af því í flokkun.