Breytingar á mati á námi utan skólans og skólareglum

Fimmtudaginn 2. september 2021 fundaði skólaráð og samþykkti meðal annars eftirfarandi reglur um mat á námi utan skólans:

Reglur um mat á námi utan skólans


Mat á sérstakri hæfni í tungumáli öðru en íslensku


  • Nemandi sem hefur sérstaka færni í öðru tungumáli en íslensku getur óskað eftir stöðumati til eininga. Um getur verið að ræða annað móðurmál viðkomandi eða aðra sérstaka hæfni í tungumáli, meðal annars vegna búsetu erlendis. Skólinn byggir á viðmiðum evrópsku tungumálamöppunnar og kallar til fagaðila sem framkvæma munnlegt og skriflegt mat á nemendum. Hæfni er metin á bilinu A1-C2 og er hæfni B2 og yfir talin réttlæta fullt mat til eininga þ.e. 20 einingar, 15 á 1. þrepi og 5 á 2. þrepi. 
  • Nemendur greiða sérstaklega fyrir stöðumat í tungumálum. Greitt er eitt gjald, 15.000 ISK, skólinn sér um ferlið að öðru leyti og er niðurstaða matsins skráð í Innu.
  • Hafi nemandi eingöngu munnlega færni í tungumáli getur viðkomandi engu síður óskað eftir stöðumati. Slík færni er þó að hámarki metin til 5 eininga og skráð í námsferil í stað norðurlandamáls.


Mat á afreksíþróttum

Skólinn metur til eininga íþróttaiðkun afreksfólks, að hámarki til 5 eininga. Skilyrði fyrir því að mat fari fram eru eftirfarandi:

  • viðkomandi keppnisgrein sé viðurkennd sem fullgild grein innan ÍSÍ.
  • umsækjandi sé í landsliði og/eða meistaraflokki eða álíka.
  • umsækjandi fylgi æfinga- og keppnisplani meistaraflokks eða álíka afrekshóps.
  • viðkomandi meistaraflokkur keppi í efstu eða næstefstu deild eða sambærilegu.
  • umsókn sé með öllum nauðsynlegum upplýsingum og fylgigögnum.


Mat á tónlistarnámi

Skólinn metur til eininga tónlistarnám sem lokið er hjá viðurkenndum tónlistarskóla á þeim tíma sem viðkomandi nemandi stundar nám í MS. Eftirfarandi viðmið gilda:

  • nemandi sem lýkur miðprófi fær það metið til 5 eininga.
  • nemandi sem lokið hefur miðprófi og heldur áfram fullu tónlistarnámi getur fengið 5 einingar metnar að auki. Gerð er krafa um samfellt tónlistarnám yfir þrjár annir.
  • nemandi sem lýkur framhaldsprófi fær það metið til 5 eininga.


Mat á flugnámi

Skólinn metur til eininga nám til flugmannsréttinda sem lokið er hjá viðurkenndum flugskóla á þeim tíma sem viðkomandi nemandi stundar nám í MS. Eftirfarandi viðmið gilda:

  • nemandi sem lýkur náminu og hefur fengið flugmannsréttindi fær það metið til 15 eininga.
  • skráðar eru 5 einingar sem raungrein, 5 einingar sem félagsgrein og 5 einingar sem almennt nám í frjálsu vali.


Mat á knapamerkjum

Skólinn metur til eininga knapamerki sem lokið er hjá viðurkenndum skóla á þeim tíma sem viðkomandi nemandi stundar nám við menntaskólann við Sund. Eftirfarandi viðmið gilda:

  • nemandi sem lýkur knapamerki 3 fær það metið til 5 eininga.
  • nemandi sem lokið hefur knapamerki 5 getur fengið 10 einingar metnar að auki.
  • nemandi sem hefur lokið knapamerki 5 getur því óskað eftir að fá nám sitt metið sem aðra sérhæfingu.

Einnig voru eftirfarandi breytingar og tímabundnar viðbætur samþykktar á skólareglum MS:

Skólareglur


Breyting á 9. grein skólareglna í ljósi breyttra aðstæðna:


Öll neysla áfengis, tóbaks og annarra vímuefna er bönnuð í húsnæði og á lóð skólans sem og á atburðum skipulögðum af skólanum. Notkun rafretta er einnig óheimil í skólanum og á atburðum á vegum skólans.


Verður eftir þá breytingu sem lögð er til:


Öll neysla og meðferð áfengis, tóbaks og annarra vímuefna er bönnuð í húsnæði og á lóð skólans sem og á atburðum skipulögðum af skólanum. Notkun og meðferð rafretta og nikótínpúða er einnig óheimil í skólanum og á atburðum á vegum skólans.


Tímabundin viðbót við skólareglur

 

Tímabundin viðbót við skólareglur Menntaskólans við Sund sem gildir meðan á sérstökum sóttvarnarráðstöfunum stendur í skólanum vegna COVID-19 faraldursins var samþykkt af skólaráði þann 2. september 2021:

Skólinn áskilur sér rétt til að meina nemanda aðgang að skólahúsnæðinu hafi viðkomandi ekki farið að tilmælum og fylgt reglum skólans varðandi smitvarnir.