Brautskráning vetrarannar 28. febrúar 2025

Brautskráning vetrarannar fór fram við hátíðlega athöfn í Menntaskólanum við Sund föstudaginn 28. febrúar. Að þessu sinni útskrifuðust átta nemendur af þremur námslínum.

Vor var í lofti þrátt fyrir vetrarhríð undanfarið og sól skein á himni. Leifur Ingi Vilmundarson, konrektor skólans, flutti ávarp þar sem hann hrósaði nýstúdentum fyrir þá seiglu sem þau hafa sýnt í náminu og minnti nemendur á að þótt þau fari úr MS, fari MS ekki úr þeim. Þau eru og verða áfram MS-ingar.

Anya María Mosty, nýstúdent af FS-línu, flutti ávarp fyrir hönd nýstúdenta. Anya María talaði um þau stóru tímamót sem útskriftin er, framundan bíði tækifærin og nú geti nýstúdentarnir uppfært ferilskrána sína og bætt við stúdentsprófinu. Anya minntist námsáranna í MS með gleði, vina sem hún hefur eignast, ánægjulegs félagslífs og þakkaði kennurum fyrir alla þolinmæðina og hjálpina.

Að lokum sameinuðust nýstúdentar og gestir í söng þar sem stúdentasöngurinn, Gaudeamus igitur, ómaði um skólann. Innilegar hamingjuóskir, kæru nýstúdentar.