Ljósmyndari: Sigurjón Ragnar www.sr-photos.com
Brautskráning vetrarannar fór fram við hátíðlega athöfn í Menntaskólanum við Sund laugardaginn 2. mars. Að þessu sinni útskrifuðust 13 nemendur af fjórum námslínum. Veðrið lék við nýstúdenta og vorilmur í lofti, dásamlegur dagur til að útskrifast, og húsbandið okkar, þau Ísold Wilberg og Jón Ingimundarson, fluttu ljúfa tóna um vorið sem kemur og heiminn sem hlýnar.
Ibtisam El Bouazzati, nýstúdent af LE-línu, flutti ávarp fyrir hönd nýstúdenta. Ibtizam þakkaði samnemendum og starfsfólki skólans fyrir samfylgdina í MS og fjallaði um þær dyr sem stúdentsprófið opnar fyrir nýstúdentunum.
Helga Sigríður Þórsdóttir, rektor skólans, flutti ávarp þar sem hún hrósaði nýstúdentum fyrir þrautseigju í námi sem hefur nú opnað þeim leiðir til að halda áfram í lífi og starfi. Rektor minntist á umræður í deiglunni undanfarið um lengd náms til stúdentsprófs og sagði að í MS þá skipti lengdin ekki máli því hver nemandi setur saman sína dagskrá og útskrifast þegar hann er tilbúinn og hefur sérhæft sig í því námi sem hann hefur valið sér.
Rektor notaði tækifærið og þakkaði samstarfsfólki sínu fyrir vel unnin störf. Kennarar og allt starfsfólk leggur mikinn metnað í að endurnýja starfshætti sína í takt við þarfir nemenda í nútíma samfélagi og í gær tók starfsfólk skólans þátt í starfsþróunardegi framhaldskólanna til að efla eigin starfsþróun. Það er gott starfsfólk, faglegir kennarar og áhugasamir nemendur sem gera MS að góðum skóla og þrátt fyrir áskoranir í húsnæðismálum og afvegaleiðingu með tali um sameiningu skóla stöndum við hér enn tilbúnari en nokkru sinni fyrr að sinna okkar hlutverki í íslensku menntakerfi. Að lokum óskaði rektor nemendum til hamingju og bað þau að njóta útskriftardagsins.