Brautskráning stúdenta 1. júní 2024

Í dag brautskráðust 192 stúdentar frá Menntaskólanum við Sund við hátíðlega athöfn í Háskólabíó. Þau bættust í hóp stúdenta sem hafa brautskráðst frá skólanum en útskrifaðir nemendur eru orðnir 9527 eftir athöfnina í dag. Nemendur brautskráðust af fjórum námslínum; félagsfræði- og sögulínu, hagfræði- og stærðfræðilínu, líffræði- og efnafræðilínu og eðlisfræði- og stærðfræðilínu. Dúx skólans að þessu sinni var Lúcía Sóley Óskarsdóttir, nýstúdent af eðlisfræði- og stærðfræðinámslínu, með meðaleinkunn 9,78. Semídúx var Amalía Rún Snorradóttir, nýstúdent af líffræði- og efnafræðilínu, með meðaleinkunnina 9,43.

Að þessu sinni voru brautskráðar 115 stúlkur og 77 piltar á þessari fjölmennustu útskrift úr þriggja anna kerfinu til þessa. Rektor skólans, Helga Sigríður Þórsdóttir, flutti ávarp þar sem hún sagði nemendur hafa sýnt í verki að þau búi yfir seiglu og séu skapandi og lausnamiðuð. Rektor hvatti nemendur til að sýna umburðarlyndi og nota rödd sína og þekkingu til góðs í lýðræðissamfélagi. Í því samhengi hvatti hún nemendur til að nýta kosningaréttinn sinn, en í dag er kjördagur og fyrsta skipti sem nýstúdentar dagsins geta kosið.

Oliver Einar Nordquist flutti ávarp fyrir hönd nýstúdenta. Oliver þakkaði kennurum sem hann hefur verið svo lánssamur að hafa í gegnum skólagöngu sína í MS og sagðist tala fyrir hönd flestra þegar hann staðhæfði hversu mikilvægt það er að hafa kennara, námsráðgjafa og skólastjórnendur sem hvetja nemendur áfram og draga þá upp þegar brekkan verður of brött. Þetta sagði Oliver ekki sjálfgefið og þakkaði þeim fyrir hönd samnemenda frá dýpstu hjartarótum.

Oliver talaði um þau tækifæri sem hann hafi fengið til að blómstra í MS í fjölbreyttu félagslífi sem hefði styrkt hann sem einstakling. Tíminn í MS hafi verið ógleymanlegur og erfitt að kveðja frábæran skóla en minningarnar sitja eftir og góð vinátta fyrir lífstíð. Oliver bað samnemendur að horfa í kringum sig og taka inn augnablikið, vinina sem þau eignuðust, kennarana sem höfðu áhrif á þau og fjölskylduna sem studdi þau. Að lokum hvatti hann samnemendur sína til að taka áhættu, keppast við að vera góðar manneskjur sem láta sér annt um aðra, feta ótroðnar slóðir, grípa tækifærin og vera eigin gæfu smiðir.

Fulltrúi eldri stúdenta flutti ávarp en Ottó Guðjónsson steig á stokk fyrir hönd Tjarnarsjóðs, styrktarsjóðs útskriftarnema 1977. Í ár veitti Tjarnarsjóður femínistafélagi skólans 200.000 króna styrk til að halda jafnréttisviku og fræða samnemendur um mörk og samskipti. Skólinn er þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga sterka bakhjarla í sínum fyrrverandi nemendum. Halda þeir meðal annars utan um þrjá styrktarsjóði sem styðja skólann og nemendur hans á ýmsum sviðum. Þessir sjóðir eru styrktarstjóður Björns Bjarnasonar, sem er sjóður útskriftarnema ársins 1973, Tjarnarsjóðurinn og Styrktarsjóður nemenda sem útskrifuðust 1989.

Í lokaorðum sínum þakkaði rektor starfsfólki skólans fyrir öflugt starf og mikla grósku sem miðar sífellt að því að gera námið og tímann í MS góðan fyrir nemendur. Loks óskaði rektor nýstúdentum og aðstandendum þeirra til hamingju með daginn og sagði svo 55. starfsári Menntaskólans við Sund slitið.