Í dag brautskráðust frá Menntaskólanum við Sund 188 nemendur og bættust í hóp stúdenta sem hafa brautskráðst frá skólanum en þeir eru orðnir 8239 eftir athöfnina í dag. Þrátt fyrir að sólin hafi ekki verið fyrirferðarmikil var dagurinn bjartur og hlýr og gaf góð fyrirheit um sumarið sem framundan er.
Brautskráðust nemendurnir af fjórum námslínum; líffræði- og efnafræðilínu, eðlisfræði- og stærðfræðilínu, hagfræði- og stærðfræðilínu og félagsfræði- og sögulínu. Eins og rektor benti á í ávarpi sínu þá var þetta glæsilegur hópur þar sem hver og einn getur sannarlega verið stoltur yfir árangrinum og þessum merka áfanga í lífinu.
Dúx skólans að þessu sinni var Thanawin Yodsurang en hann brautskráðist af eðlisfræði- og stærðfræðinámslínu með meðaleinkunn 9,7. Semídúxar skólans voru tveir með meðaleinkunnina 9,22, þær Freyja Þöll Sigþórsdóttir sem brautskráðist af eðlisfræði - og stærðfræðilínu og Karen Hrund Logadóttir sem brautskráðist af hagfræði- og stærðfræði námslínu.
Kynjahlutföll nýstúdenta voru nokkuð jöfn en skólinn brautskráði 93 stúlkur og 95 pilta. Er það sérstaklega áhugavert í ljósi þess að piltar eru taldir líklegri til brottfalls úr framhaldsskólum en stúlkur. Má leiða líkur að því að kennsluaðferðir skólans henti breiðari hópi en þar er lögð áhersla á eflingu námskrafts nemenda og verkefnanmiðað nám í þriggja anna kerfi.
Rektor skólans flutti ávarp og gerði hann gagnrýna hugsun að umfjöllunarefni í orðum sínum og sagði hana vera einn af lykilþáttum náms. Einkenni gagnrýninnar hugsunar sagði rektor vera rökhugsun, ígrundun og sköpun. Rökhugsun felur í sér að huga að orsakasamhengi og skoða forsendur. Ígrundun felur í sér að setja ólíkar niðurstöður í samhengi og skoða allar hliðar máls. Þegar sköpunargáfunni sé beitt hugsum við út fyrir ramman og setjum hlutina í nýtt samhengi. Þannig verður eitthvað nýtt til sem jafnvel þróast í eitthvað ómótstæðilegt eða frábært fyrir okkur sjálf eða mannkynið. Með þessum hætti sagði rektor nemendur takast á við nám sitt í MS, til dæmis í umhverfisfræði, fyrirtækjasmiðju, listgreinum og lokaverkefnisáföngum þar sem þessir þættir séu sérstaklega þjálfaðir. Ræddi rektor um gervigreindina sem við getum nýtt okkur til gagns en til að við nýtum gervigreindina en ekki hún okkur þurfum við að vera gagnrýnin í hugsun.
Þorvaldur Nói Tobiasson Klose flutti ávarp fyrir hönd nýstúdenta. Nói ræddi um hversu einstök við öll erum, það séu ólíkir hlutir sem kveiki neistann hjá okkur og öll búum við yfir ólíkum styrkleikum. Það sem sé einum auðvelt geti verið öðrum erfitt og öfugt. Alla sagði hann nýstúdentana hafa þurft að leggja eitthvað á sig til að standa í þessum sporum í dag. Við séum öll einstök, engir eru eins en öll séum við frábær nákvæmlega eins og við erum. Sagði Nói suma nýstúdenta í hópnum ákveðna varðandi framtíð sína á meðan aðrir hafi ekkert ákveðið. Sumir eigi jafnvel eftir að ganga út úr Háskólabíói í dag og spyrja sig: Hvað nú? Hvað er planið? Þetta sagði Nói bara vera í góðu lagi, það þurfi ekkert alltaf að vera eitthvað plan. Það sé hins vegar mikilvægt að vera tilbúin til að grípa tækifærin sem bjóðast, taka lífinu eins og það þróast og leyfa því aðeins að leika sér með okkur. Voru skilaboð Nóa til félaga sinna í MS sterk, svo lengi sem við höldum áfram að elska, sýna góðvild og kærleika, þá séu okkur allir vegir færir.
En það voru fleiri en nýstúdentar sem stigu á stokk í Háskólabíói í dag því Menntaskólinn við Sund á sterka bakhjarla í sínum fyrrverandi nemendum sem bera sterkar tilfinningar til síns gamla skóla. Halda þeir meðal annars utan um þrjá styrktarsjóði sem styðja skólann og nemendur hans á ýmsum sviðum. Þessir sjóðir eru Styrktarsjóður nemenda sem útskrifuðust 1989, Tjarnarsjóðurinn sem er styrktarsjóður útskriftarnema 1977 og loks styrktarstjóður Björns Bjarnasonar, sem er sjóður útskriftarnema ársins 1973. Í ár veitti Tjarnarsjóðurinn rafíþróttaliði MS 200.000 króna styrk sem ætlaður er til að styðja liðið enn frekar og stuðla að öflugri félagslegri inngildingu þeirra sem taka þátt.
Í fyrsta sinn í sögu Menntaskólans við Sund á hann 50 ára stúdenta í útskriftarhópi ársins 1973, hópi sem bæði hóf og lauk sínu námi í forvera MS, Menntaskólanum við Tjörnina. Hópurinn veitti 500.000 króna styrk í sjóðinn. Í tilefni 50 ára útskriftarafmælisins veitti hópurinn einnig styrki til tveggja nemenda, annars vegar til dúx skólans, Thanawin Yodsurang, fyrir framúrskarandi námsárangur og hins vegar til Þorvaldar Nóa Tobiassonar Klose, fráfarandi ármanns skólans, fyrir leiðtogahæfni og prúðmennsku. Flutti Ólafur Hauksson ávarp fyrir hönd 50 stúdenta og varpaði hann skemmtilegu ljósi á það hvernig hópurinn hefur upplifað tímana tvenna þrátt fyrir að vera í raun alltaf óbreyttur frá menntaskólatímanum. Fyrir utan að hár væri farið að þynnast og lesgleraugu farin að einkenna hópinn. Var ljóst að þrátt fyrir að hópurinn líti á MS sem skólann sinn þá er honum annt um nafn MT, Menntaskólans við Tjörnina. Sló Ólafur á létta strengi og benti á að nafnið gæti hlotið endurnýjun lífdaga með sameiningu Kvennó og MR við Tjörnina og skaut þannig góðlátlega á yfirvöld menntamála og vangaveltur þeirra um sameiningar framhaldsskóla.
Rektor flutti lokaorð til nýstúdenta og gesta og sagði MS skóla sem vilji vera í fremstu röð. Skólinn væri vissulega í húsnæðisþrengingum þessa dagana en skóli sé svo miklu meira en húsnæðið sem hýsir hann. Skóli sé mannauðurinn sem þar starfar, nemendur og starfsfólk. Saman stuðli þessi hópur að menntun og þroska þeirra sem samfélagið byggja. Í MS sé mikil gróska og þróun, allt með því markmiði að mennta nemendur sem best og veita þeim góða þjónustu. Í ljósi mikillar hæfni starfsfólks sagði rektor skólanum hafa verið úthlutað hinum ýmsu verkefnum í nafni farsældarlaga af yfirvöldum menntamála. Í fyrra hafi skólinn stofnað starfsbraut á afar skömmum tíma og nú á vormánuðum barst skólanum beiðni um að skoða sameiningu við annan skóla og mögulega flytja hann í annað húsnæði á næsta ári. Sagði rektor skólann að sjálfsögðu fagna því að fá tækifæri til þess að þjóna breiðari nemendahópi. Í MS sé metnaður fyrir því að veita ávallt bestu mögulegu menntun á hverjum tíma og að lognmollan dugi ekki til að takast á við samfélagslegar áskoranir í síbreytilegum heimi nútímans. Starfsfólk MS muni ekki láta sitt eftir liggja þegar kemur að því að uppfylla menntastefnu stjórnvalda. MS sé skóli fyrir alla sem geti boðið upp á ótrúlega möguleika í framtíðinni – hann eigi 50 ára útskriftarnema og sé rétt að byrja. Sagði rektor svo 54. starfsári Menntaskólans við Sund slitið.
Er óhætt að segja að það hafi verið stoltir og glaðir nýstúdentar sem gengu út í sumarið með sínu nánasta fólki að athöfn lokinni. Skólinn er ekki síður stoltur af sínum nemendum og óskar þeim velfarnaðar í þeim verkefnum sem þeir taka sér fyrir hendur. Framtíðin er í góðum höndum hjá þessum efnilegu ungmennum okkar!