Í dag brautskráðust níu nemendum frá Menntaskólanum við Sund en skólinn brautskráir nýstúdenta við lok hverrar annar í þriggja anna kerfi. Veðrið lék við nýstúdenta og fjölskyldur, fuglar sungu og það var vor í loft þrátt fyrir að dagatalið segi enn vera talsverðan tíma til vors.
Athöfnin var að vanda hátíðleg með hvetjandi ávörpum og hugljúfri tónlist. Adrian Aron Nastor, útskriftarnemi, lék á píanó Fantasíu í cís moll eftir F. Chopin og er óhætt að segja að hann hafi hrifið hug og hjörtu viðstaddra með undurfögrum hljóðfæraleik. Einnig flutti Ísold Wilberg þrjú lög við undirleik Jóns Ingimundarsonar píanóleikara.
Nýstúdentarnir í dag brautskráðust af fjórum námslínum; líffræði- og efnafræðilínu , eðlisfræði- og stærðfræðilínu, hagfræði- og stærðfræðilínu og félagsfræði- og sögulínu. Hlaut Ólafur Þór Fortune viðurkenningu frá skólanum fyrir framúrskarandi árangur í eðlisfræði og stærðfræði.
Ólafur Þór Fortune flutti einnig ávarp fyrir hönd nýstúdenta og óskaði hann samnemendum sínum til hamingju með áfangann sem öll hefðu þau lagt mikla vinnu í. Hann lýsti þeim blendnu tilfinningum sem fylgja brautskráningu úr menntaskóla, blöndu óvissu og hamingju. Einum kafla lífsins sé lokið og nú taki annar við. Sagðist Ólafur Þór nú vera farinn að skilja hvað fullorðna fólkið ætti við þegar það talaði um að menntaskólaárin væru bestu ár lífsins. Ólafur Þór lauk orðum sínum með tilvitnun sem hann vera sér hugleikna: ,,Berðu þig saman við þann sem þú varst í gær, ekki það sem einhver annar er núna.“ Þetta veganesti hvatti hann samnemendur sína til að taka með sér, hugsa um hvað við viljum vera á morgun og gera allt sem við getum til að vaxa sem einstaklingar og vera besta útgáfan af sjálfum okkur, lífið sé allt framundan.
Helga Sigríður Þórsdóttir, rektor skólans flutti ávarp við athöfnina og hrósaði hún brautskráningarnemendum fyrir árangur sinn sem ekki væri sjálfgefinn, það þyrfti þrautseigju og seiglu til að vinna á málum og verkefnum sem væru erfið og til að gefast ekki upp þegar á móti blæs. Nemendurna sagði hún sannarlega hafa lært eitt og annað á árunum í MS. Sumir hafi lært að stofna fyrirtæki, aðrir að stilla efnajöfnur, sumir að sauma og hanna flík eða skipuleggja og framkvæma vísindatilraun. Rektor varð tíðrætt um vellíðan og velferð nemenda og sagði að okkur í MS væri umhugað um árangur nemenda en ekki síður um þeim hafi liðið vel í skólanum, náð góðum tengslum við jafnaldra, eignast dýrmæta fyrirmynd í einhverjum kennara eða jafnvel eignast góðan vin eða vinkonu.
Rektor þakkaði að lokum samstarfsfólki sínu fagmennsku og færni, skóli væri ekki mannvirkið sem hýsti hann, skóli væri mannauðurinn sem þar starfaði; nemendur kennarar og annað starfsfólk. Hún bauð nemendum að ganga glaðir og stoltir út í daginn.