Enn einu sinni er fríður hópur nemenda úr Menntaskólanum við Sund kominn heim úr velheppnaðri ferð til Berlínar. Ferðin var bæði menntun og skemmtun eins og ferðir eiga að vera. Nemendur voru áhugasamir og indælir og veðurguðir voru hópnum hliðhollir.
Meðal þess sem skoðað var voru eitt málverkasafn, tvö söfn um sögu Berlínar og Þýskalands, Ólympíuleikvangurinn, minningarstaður um Berlínarmúrinn, hvolfþak Þinghússins auk Brandenborgarhliðsins og ótalinna annarra bygginga og minnisvarða. Suma munaði meira að segja ekki um að fara upp á útsýnispall Sjónvarpsturnsins í 200 m hæð. Eftir strangar skoðunarferðir hvers dags gáfu kennarar nemendum síðan lausan tauminn í verslunarhúsum borgarinnar.
Þetta var tíunda ferð mín með hópa úr MS til útlanda, - til Þýskalands, Ítalíu, Mexikó og Kúbu. Átta ferðir voru undirbúnar og farnar í frábærri samvinnu við samstarfsfólk í MS, tvær ferðir sá ég um einn. Nú eru alla vega ekki margar ferðir eftir á þessum starfsvettvangi. Ég nota tækifærið og þakka öllum kærlega fyrir samstarf og samfylgd.
Guðmundur V. Karlsson þýskukennari