Árið 2012 var gerð ýtarleg rannsókn á hvaða ástæður valda brotthvarfi nemenda í Bandaríkjunum. Að lokinni rannsókn var ástæðum brotthvarfs skipt niður í fjóra flokka sem hver um sig eða sambland þeirra geta verið grunnur að því að nemandi ákveður að hætta námi. Samandregið má lýsa flokkunum á eftirfarandi hátt:
- Tengdir skóla, þar sem eitthvað í skólaumhverfinu veldur því að nemendinn hættir.
- Tengdir nemendanum sjálfum, veikindi, neysla, hegðunarvandkvæði, lágt sjálfsmat eða sjálfsmynd, félagsleg staða og fleira.
- Tengdir samfélaginu, þar sem skortur er á stuðningi samfélagsins til dæmis vegna fátæktar.
- Tengdir fjölskyldunni, þar sem hvatning er af skornum skammti og almennt áhugaleysi um hag nemandans. Annars konar fjölskyldutengd vandamál eða ofbeldi.
(Capuzziog Gross, 2014).
Ástæða er til að spyrja hvort að ætla megi að sömu ástæður liggi að baki brotthvarfi hérlendis og fram kemur í ofangreindri rannsókn. Mennta-og menningarmálaráðuneytið hvetur til að skimað skuli fyrir áhættuþáttum brotthvarfs í framhaldsskólum (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2014). Skimunarlisti ráðuneytisins er lagður fyrir nemendur í Menntaskólanum við Sund. Spurningarnarí listanum eru taldar gefa vísbendingar um gengi nemenda. Spurningarnar eru fyrst almenns eðlis en síðan tengdar skuldbindingum nemenda til náms, bæði náms- og félagslegum. Þar er einnig spurt um virkni í námi, trú áeigin getu, vissu um námsval, stuðning kennara og samsömun við skóla. Nemendur eru beðnir um að meta eigin skólahegðun og segja frá fyrri námsárangri og hvort þau telji sig eiga við námserfiðleika að stríða. Þá eru nemendur beðnir um að meta stuðning og hvatningu foreldra, eftirfylgni þeirra og að síðustu er spurt um hvaða mat nemandi leggur á skuldbindingu vina þeirra til náms og skóla.
Við Menntaskólann við Sund er unnið eftir ákvæðum aðalnámskár, lögum og reglugerðum ásamt því að huga að nýjungum í kennsluháttum og þróunarstarfi eins og vera ber.
Aðgerðir í MS
Skólinn hefur látið gera rannsókn á starfsemi sinni með tilliti til aðgerða gegn brotthvarfi og fengið sérfræðing til þess að vinna þrjár skýrslur sem nota mætti í skólastarfinu í baráttunni gegn brotthvarfi. Þar að auki vinnur teymi stjórnenda, mætingastjóra og námsráðgjafa saman að þessum málum og heldur sérstaklega utan um þá nemendur sem taldir eru í brotthvarfshættu og heldur uppi vöktun sýni einhver einkenni sem gætu bent til þess að aðstæður hjá viðkomandi væru að breytast á þann veg að hann teldist í aukinni hættu að hverfa frá námi.
Síðast uppfært: 14.11.2018