Almennar skólareglur
Nemendum og starfsmönnum Menntaskólans við Sund ber að halda í heiðri eftirfarandi skólareglur:
- Virða skal markmið skólans, stefnu hans og reglur.
- Kurteisi, heiðarleiki og virðing skal ríkja í öllum samskiptum.
- Sækja skal allar kennslustundir stundvíslega.
- Virða skal verkstjórn kennara.
- Nemendum og starfsfólki ber að ganga vel um húsnæði og lóð skólans.
- Nemendur virði reglur um höfundarétt og notkun og skráningu heimilda.
- Nemendur virði skilafrest á verkefnum og kennarar tilgreini og virði skilatíma verkefna.
- Forföll starfsfólks skal tilkynna á skrifstofu skólans.
- Öll neysla og meðferð áfengis, tóbaks og annarra vímuefna er bönnuð í húsnæði og á lóð skólans sem og á atburðum skipulögðum af skólanum. Notkun og meðferð rafretta og nikótínpúða er einnig óheimil í skólanum og á atburðum á vegum skólans.
Í lögum um framhaldsskóla frá árinu 2008 segir svo í 33. grein laganna:
Ábyrgð nemenda
- Nemendur bera ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni og samskiptum.
- Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks framhaldsskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og samnemendur.
- Ef hegðun nemanda reynist verulega áfátt ber skólanum að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans sé hann yngri en 18 ára.
- Meðan mál skv. 3. mgr. er óútkljáð getur skólameistari vísað nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið, enda tilkynni hann nemandanum, og foreldrum hans sé hann yngri en 18 ára, tafarlaust þá ákvörðun. Um slíka ákvörðun gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Skólinn skal leiðbeina nemanda yngri en 18 ára, sem vísað er úr skóla ótímabundið, um mögulega endurkomu í nám óski hann þess.
- Við ákvörðun skólameistara um rétt eða skyldur skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, svo sem brottvísun úr skóla í fleiri en einn skóladag eða að nemanda sé meinað að sækja kennslutíma í ákveðnu fagi eða námsgrein um nokkurt skeið, skal fylgja reglum stjórnsýslulaga um málsmeðferð. Ákvörðun skólameistara er kæranleg til ráðherra. Um málskot gilda ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga.
- Ráðherra mælir nánar fyrir um framkvæmd þessarar greinar í reglugerð. 1)] 2)
Í Menntaskólanum við Sund gilda auk þessa aðrar reglur, svo sem reglur um vinnufrið, reglur um skólasókn, reglur um heiðarleika í námi og reglur um snjalltækjanotkun en nánar er gerð grein fyrir þessum reglum sem og öðrum í skólanámskrá MS (sjá hér neðar). Brjóti nemandi reglur skólans getur það leitt til áminningar og jafnvel brottrekstrar. Brottvísun getur verið tímabundin eða varanleg eftir eðli máls.
Síðast uppfært: 18.06.2024
Reglur um skólasókn
1. Nemendur eiga að mæta stundvíslega í allar kennslustundir.
Fjarvist úr einni kennslustund jafngildir einu fjarvistastigi. Nemendur byrja með 100% mætingu í upphafi hverrar annar. Uppgjör skólasóknar fer fram reglulega. Mæting undir 85% telst agabrot.
Ef ólögráða nemandi uppfyllir ekki ákvæði um skólasókn eru forráðamenn upplýstir um stöðuna og mögulegar afleiðingar.
2. Raunmæting er hluti af námsmati í öllum námsgreinum.
Raunmæting er reiknuð án tillits til vottorða og leyfa. Við útreikning á raunmætingu er tekið tillit til námsferða á vegum skólans. Raunmæting gildir að lágmarki 5 prósent af lokaeinkunn í hverri grein.
3. Mæting verður skráð fyrir hverja 40 mínútna kennslustund.
Mætingarhlutfall nemenda verður birt á einkunnablöðum sem heildarmæting í skólann á önninni.
Manntal er tekið við upphaf kennslu og skráning er eftirfarandi:
- M: Nemandi mættur þegar manntal er tekið
- F: Fjarvist, nemandi er ekki mættur þegar manntal er tekið
- O: Nemandi sinnir námi/ skólastarfi utan kennslustofu
- X: Tími er ekki haldinn
- U: Annað, nemandi er fjarverandi vegna sérstakra aðstæðna í samráði við skólann
Undanþágur frá skólasóknarreglum
- Skólinn leitast við að koma til móts við langveika nemendur, liggi fyrir formleg vottun frá viðkomandi sérfræðingi.
- Afreksfólk getur sótt um sérstakt tímabundið frávik frá mætingarreglum. Vottun frá viðkomandi fagaðila þarf að liggja fyrir í samræmi við grein 16.2 í Aðalnámskrá framhaldsskóla.
Umbun fyrir afburðamætingu
Nemendur með 98-100% raunmætingu fá 1 einingu á önn fyrir mætingu. Nemandi með afburðarmætingu í gegnum skólagönguna getur þá fengið 5 einingar metnar fyrir mætingu í frjálsu vali. (Regla sem gildir frá og með vetrarönn 2022-2023).
Síðast uppfært: 12.12.2024
Tilkynna þarf veikindi til skólans í gegnum Innu. Hér má sjá leiðbeiningar um það, reglur um leyfisveitingar og upplýsingar um eftirfylgni með mætingu nemenda, raunmætingu og einkunnakvarða vegna raunmætingar:
Reglur um vinnufrið
- Nemendur virði verkstjórn kennara.
- Nemendur mæti stundvíslega.
- Nemendur mæti með kennslubækur og önnur námsgögn.
- Nemendur taki virkan þátt í náminu og stuðli að góðum vinnuanda.
- Nemendur stilli margmiðlunartæki sín á þögn eða hafi slökkt á þeim.
- Nemendur nýti fartölvur aðeins til náms í viðkomandi kennslugrein.
Viðbrögð við agabrotum
- Kennari skal ávíta nemendur sem spilla vinnufriði.
- Kennara er heimilt að vísa nemanda, sem spillir vinnufriði, úr kennslustund. Kennari skal upplýsa kennslustjóra um atvikið sem og önnur alvarleg agabrot.
- Kennslustjóri skráir slík atvik, ræðir við nemendur sem verða uppvísir að alvarlegum agabrotum og upplýsir jafnframt forráðamenn ólögráða nemenda um málið. Kennslustjóri vísar eftir atvikum máli áfram til rektors.
- Rektor getur áminnt nemanda og vísað úr skóla ef áminningu er ekki sinnt. Brottvísun getur verið tímabundin eða varanleg eftir eðli máls.
Telji nemendur kennara ekki tryggja vinnufrið í kennslustund geta þeir komið kvörtunum til konrektors eða rektors.
Síðast uppfært: 09.08.2017
Reglur um heiðarleika í námi
Einkunnarorð MS eru jafnrétti, heiðarleiki, virðing og ábyrgð. Þessi gildi eru hornsteinn þess skólabrags sem MS vill stuðla að og vera þekktur fyrir í samfélaginu. Nemendur bera ábyrgð á skólabrag ekki síður en starfsmenn skólans og með því að vinna heiðarlega sýnum við skólastarfinu virðingu, öxlum ábyrgð á störfum okkar og tryggjum að allir fái sömu tækifæri. Í Menntaskólanum við Sund gilda eftirfarandi reglur um heiðarleika í námi:
- Nemendum ber að kynna sér reglur um verklag, heimildanotkun og notkun gervigreindar í hverjum áfanga fyrir sig. Sé nemandi í vafa ber viðkomandi að leita til kennara og fá nánari leiðbeiningar.
- Skólinn lítur svo á að þegar nemandi skilar verkefni/prófi undir sínu nafni sé um að ræða eigið hugverk viðkomandi. Þetta á einnig við sé skilað fyrir hönd hóps, nemendur bera alltaf sameiginlega ábyrgð á því að unnið sé í samræmi við reglur og teljast ábyrgir reynist þær brotnar.
- Skólinn lítur svo á að þeir nemendur sem aðstoða samnemendur sína við að brjóta gegn reglum skólans teljist meðsekir og þar með brotlegir við skólareglur. Þetta á til dæmis við þegar brotið er gegn reglum um höfundarrétt með því að afhenda samnemendum verkefni til afritunar. Einnig á þetta við í einstaklingsverkefnum/ prófum.
- Þessar reglur eiga einnig við um notkun gervigreindar í námi.
Breytingar á reglum samþykktar á skólaráðsfundi 8.11.2023
Siðareglur um notkun snjalltækja
- Nemendum er heimilt að hafa snjalltæki meðferðis í skólann en þó ber að hafa slökkt á slíkum tækjum í kennslustundum nema kennari ákveði annað. Tækin skulu geymd afsíðis t.d. ofan í tösku.
- Kennari stýrir vinnu í kennslustundum og stjórnar notkun á snjalltækjum. Kennari ber ábyrgð á verklagi í sínum kennslustundum og hefur því fullt umboð skólans til að leyfa eða banna notkun snjalltækja.
- Kennslustofur eru ekki opinber svæði. Upptaka og myndataka á einstaklingi án leyfis viðkomandi í kennslustofunni brýtur gegn opinberum reglum um persónuvernd. Slík notkun snjalltækja er því óheimil með öllu og telst alvarlegt agabrot.
- Brjóti nemandi reglur skólans um notkun snjalltækja bregst skólinn við eins og um agabrot sé að ræða. Ítrekuð brot geta haft íþyngjandi afleiðingar fyrir viðkomandi nemanda.
Síðast uppfært: 17.08.2018
Reglur um mat á námi utan skólans og á félagsstörfum nemenda
Mat á tungumálafærni
Nemandi sem hefur sérstaka færni í öðru tungumáli en íslensku getur óskað eftir stöðumati til eininga. Um getur verið að ræða annað móðurmál viðkomandi eða aðra sérstaka hæfni í tungumáli, meðal annars vegna búsetu erlendis. Skólinn byggir á viðmiðum evrópsku tungumálamöppunnar og kallar til fagaðila sem framkvæma munnlegt og skriflegt mat á nemendum. Hæfni er metin á bilinu A1-C2 og er hæfni B2 og yfir talin réttlæta fullt mat til eininga þ.e. 20 einingar, 15 á 1. þrepi og 5 á 2. þrepi.
- Nemendur greiða sérstaklega fyrir stöðumat í tungumálum. Greitt er eitt gjald, 15.000 ISK, skólinn sér um ferlið að öðru leyti og er niðurstaða matsins skráð í Innu.
- Hafi nemandi eingöngu munnlega færni í tungumáli getur viðkomandi engu síður óskað eftir stöðumati. Slík færni er þó að hámarki metin til 5 eininga og skráð í námsferil í stað norðurlandamáls.
Mat á afreksíþróttum
Skólinn metur til eininga íþróttaiðkun afreksfólks, að hámarki til 5 eininga. Skilyrði fyrir því að mat fari fram eru eftirfarandi:
- Viðkomandi keppnisgrein sé viðurkennd sem fullgild grein innan ÍSÍ.
- Umsækjandi sé í landsliði og/eða meistaraflokki eða álíka.
- Umsækjandi fylgi æfinga- og keppnisplani meistaraflokks eða álíka afrekshóps.
- Viðkomandi meistaraflokkur keppi í efstu eða næstefstu deild eða sambærilegu.
- Umsókn sé með öllum nauðsynlegum upplýsingum og fylgigögnum.
Mat á tónlistarnámi
Skólinn metur til eininga tónlistarnám sem lokið er hjá viðurkenndum tónlistarskóla á þeim tíma sem viðkomandi nemandi stundar nám í MS. Eftirfarandi viðmið gilda:
- Nemandi sem lýkur miðprófi í tónlist og tónfræðigreinum getur fengið það metið til allt að 10 eininga á öðru hæfniþrepi.
- Nemandi sem lýkur fullgildu framhaldsprófi á meðan hann stundar nám í MS getur fengið það metið til 10 eininga á 3. hæfniþrepi.
Mat á flugnámi
Skólinn metur til eininga nám til flugmannsréttinda sem lokið er hjá viðurkenndum flugskóla á þeim tíma sem viðkomandi nemandi stundar nám í MS. Eftirfarandi viðmið gilda:
- Nemandi sem lýkur náminu og hefur fengið flugmannsréttindi fær það metið til 15 eininga.
- Skráðar eru 5 einingar sem raungrein, 5 einingar sem félagsgrein og 5 einingar sem almennt nám í frjálsu vali.
Mat á knapamerkjum
Skólinn metur til eininga knapamerki sem lokið er hjá viðurkenndum skóla á þeim tíma sem viðkomandi nemandi stundar nám við Menntaskólann við Sund. Eftirfarandi viðmið gilda:
- Nemandi sem lýkur knapamerki 3 fær það metið til 5 eininga.
- Nemandi sem lokið hefur knapamerki 5 getur fengið 10 einingar metnar að auki.
- Nemandi sem hefur lokið knapamerki 5 getur því óskað eftir að fá nám sitt metið sem aðra sérhæfingu
Reglur um mat á félagsstörfum nemenda
Skólinn metur framlag nemenda til skólabrags og félagslífs mikils. Þeir nemendur sem leggja sérstaklega hart að sér, samnemendum sínum og skólanum til góðs, geta sótt um að fá störf sín metin til eininga á árs grundvelli í samræmi við eftirfarandi viðmið:
- Þátttakendur í sýningum Thalíu geta sótt um 5 einingar í frjálsu vali. Gerð er krafa um að fyrir liggi formleg vottun leikstjóra og staðfesting frá formanni Thalíu.
- Keppendur í MORFÍS og Gettu betur geta sótt um 5 einingar í frjálsu vali. Gerð er krafa um að fyrir liggi formleg vottun þjálfara og staðfesting frá formanni málfundafélags SMS.
- Kjörnir formenn nefnda og ráða SMS geta óskað eftir því að fá 5 einingar í frjálsu vali fyrir sín störf. Gerð er krafa um að fyrir liggi jákvæð umsögn miðhóps og staðfesting frá félagsmálastjóra.
- Meðlimir miðhóps geta óskað eftir því að fá 5 einingar í frjálsu vali fyrir sín störf. Gerð er krafa um að fyrir liggi jákvæð umsögn félagsmálastjóra og staðfesting frá kennslustjóra.
Síðast uppfært: 03.02.2023
Reglur um dansleikjahald
Það er skoðun skólans að dansleikir á vegum hans séu mikilvægur þáttur í félagslífi nemenda. Markmið skólans er að þessir dansleikir fari vel fram þannig að þeir séu skólanum og nemendum hans til sóma. Skólinn álítur að til þess að það markmið náist þurfi til öflugt samstarf þeirra sem að þessum atburðum koma, svo sem skólans, félagsmálastjóra forvarnarfulltrúa, SMS, nemenda og foreldra/forráðamanna þeirra.
ÖLVUN ÓGILDIR MIÐA
- Dansleikir á vegum Menntaskólans við Sund eru haldnir á ábyrgð rektors og undir umsjón starfsfólks skólans og SMS.
- Umsjón með gæslu á dansleikjum er í höndum félagsmálastjóra.
- Dansleikir eru leyfðir til kl. 1:00. Hætt er að hleypa inn kl. 23:00.
- Miðasala fer fram í gegnum miðasölukerfi þar sem upplýsingar eru skráðar um kaupanda. Félagsmálastjóri heldur utan um lista með nöfnum gesta, kennitölum þeirra og símanúmerum og skal sá listi vera tilbúinn áður en dansleikur hefst. Allir sem kaupa miða sækja armband til stjórnar SMS / félagsmálastjóra áður en dansleikur hefst og sýna miða auk skilríkja við afhendingu armbands.
- Fjöldi gæslumanna skal vera í samræmi við kröfur lögreglu þar um.
- Á dansleikjum skal fyrirfram vera gengið þannig frá röð við inngang að ekki skapist hætta á miklum troðningi. Unnið skal að því að dreifa aðsókninni á lengra tímabil með eftirfarandi hætti: Nemendur á 1. ári mæta á bilinu 22:00-22:20, 2. ár mætir 22:20-22:40 og 3. ár mætir 22:40-23:00.
- Á hverjum dansleik eru foreldrar boðaðir á foreldrarölt fyrir utan ballstað. Kennslustjóri og foreldraráð sér um að boða aðstandendur á röltið vikuna fyrir dansleikinn með því að senda út skráningarlista á alla aðstandendur.
- Efla skal samstarf SMS og forvarnarfulltrúa skólans með það markmið í huga að vinna gegn neyslu og drykkju nemenda fyrir dansleiki.
- Allir nýnemar blása í áfengismæli á leið inn á ballið og er það skilyrði fyrir inngöngu á ballið. Neiti nemandi að blása eða ef hann reynist undir áhrifum áfengis er viðkomandi vísað af ballinu og hringt í forsjárfólk
- Nemendur sem voru í edrúpotti á síðasta balli mega bjóða með sér gesti á næsta ball í samræmi við ákvarðanir hverju sinni. Nemendur í SMS njóta forgangs við kaup á miðum.
- Engar vínveitingar eru leyfðar á skóladansleikjum né meðferð áfengis og annarra vímuefna. Nemendum, sem koma undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna, er ekki hleypt inn á dansleiki skólans. Ölvun ógildir miða.
- Starfsfólk skólans hefur samstundis samband við aðstandendur þeirra nemenda, undir 18 ára, sem þarf að hafa afskipti af vegna óláta eða ölvunar.
- Þurfi starfsmenn að hafa afskipti af nemanda sem er undir áhrifum eða vegna óláta munu félagsmálastjóri, forvarnafulltrúi og kennslustjóri taka mál hans til meðferðar svo skjótt sem auðið er. Afleiðingin getur verið viðvörun og/eða takmörkun þátttöku nemanda í félagslífi skólans.
- Dansleikir SMS eru tóbaks- og veiplausir. Komi gestir með slíkt inn á dansleikinn er því fargað.
- Nemendafélag skólans og Menntaskólinn við Sund munu funda fyrir og eftir dansleiki og skulu aðilar skila skýrslu um dansleikinn til rektors eigi síðar en viku frá dansleik.
Endurskoðaðar reglur samþykktar á fundi skólaráðs 31.10.2024
Reglur í nemendaferðum
Þátttaka nemenda í námsferðum á vegum skólans
Áður en nemandi er skráður þátttakandi í námsferð þarf hann að staðfesta þátttöku sína með undirskrift og að hann muni hlýta reglum skólans í námsferðinni og verkstjórnarvaldi kennara. Ef nemandi er undir 18 ára aldri við upphaf ferðar þarf skólinn skriflegt samþykkt forráðamanns fyrir þátttöku nemandans í ferðinni. Slíkt eyðublað má finna hér og kallast samþykkisyfirlýsing.
Ábyrgð nemenda í námsferðum
Nemendur sem taka þátt í námsferðum á vegum skólans skuldbinda sig til þess að virða að fullu verkstjórnarvald þeirra kennara sem stýra ferðinni. Jafnframt skuldbinda nemendur sig með þátttöku í ferðinni að virða skólareglur í ferðinni, þar á meðal reglur skólans um bann við notkun áfengis, nikótíngjafa eða annarra vímuefna. Með þátttöku í ferð undirgangast nemendur þær sérreglur sem gilda í ferðinni, til dæmis um þátttöku, útvistarreglur, samskipti og svo framvegis. Óháð dagskrá námsferða hverju sinni þá gilda reglur skólans alla námsferðina, jafnt á kvöldin og um helgar sem og á dagtíma.
Námsmat vegna þátttöku í ferðum
Námsferðir eru hluti af námi viðkomandi áfanga. Kveðið er á um í námsáætlun hvernig námsmati vegna ferðar skuli háttað. Virkni og þátttaka nemandans í námsferðinni hefur áhrif á námsmatið.
Brot á reglum í námsferð
Komi til brota á reglum skólans skrá viðkomandi kennarar þau í skýrslu til skólans sem er skilað til rektors að lokinni námsferð. Ef um alvarleg brot er að ræða og viðkomandi aðili hlýtir ekki fyrirmælum kennara getur komið til þess að vísa þurfi nemanda úr hópnum sem neyðarúrræði. Ef nemandi er orðinn sjálfráða getur hann þurft að víkja úr hópnum og ganga frá eigin málum á eigin kostnað. Ef viðkomandi nemandi er ekki sjálfráða verður haft samband við forráðamann hans áður en ákvörðun er tekin um viðbrögð.
Síðast uppfært 13.11.2024
Reglur um markaðssetningu í MS
Á heimasíðu Umboðsmanns barna segir m.a.:
Umboðsmaður barna og talsmaður neytenda gáfu í ársbyrjun 2009 út leiðbeinandi reglur um neytendavernd barna. Þar segir í V. kafla um skóla og æskulýðsstarfsemi:
1. Framhaldsskólar
Auglýsingar, kostun og önnur markaðssókn eða kynning skal aðeins heimil með skriflegu leyfi skólameistara eða fulltrúa hans. Skal leyfið gefið sérstaklega í hvert sinn eða fyrirfram fyrir tiltekinn tíma.
Samningar sem nemendafélag gerir til hagsbóta fyrir félagsmenn skulu vera
• gagnsæir og aðgengilegir nemendum og
• kynntir skólameistara fyrirfram.
Stjórnarmenn eða aðrir fulltrúar nemendafélaga mega ekki hagnast eða njóta nokkurra persónulegra hlunninda umfram aðra frá fyrirtæki vegna viðskipta eða markaðssetningar sem nemendafélagið hefur milligöngu um.
Nemendafélag gefur ekki fyrirtækjum upp persónulegar upplýsingar á borð við GSM-númer, heimilisfang eða netfang nemenda til notkunar í markaðssetningu. Óheimilt er fyrirtækjum að notast við nemendalista í markaðssetningu. Ef félagið kýs að hafa milligöngu við markaðssetningu með því að hringja í félagsmenn, senda þeim tölvupóst eða afhenda límmiðalista skal áður gefa öllum félagsmönnum kost á að andmæla því, hverjum fyrir sitt leyti, að vera á slíkum lista.
(Heimild: https://barn.is/malaflokkar/framhaldsskoli/#k24. Sótt 16.4.2018).
Síðast uppfært: 16.04.2018
Undanþágur frá skólanámskrá
Nám til stúdentsprófs við Menntaskólann við Sund er skilgreint sem 200 einingar. Nemendur geta valið um nám á tveimur námsbrautum, félagsfræðabraut og náttúrufræðibraut, og skiptast þær í fjórar námslínur. Félagsfræðabrautin skiptist í félagsfræði-sögulínu og hagfræði-stærðfræðilínu en náttúrufræðibrautin skiptist í efnafræði-líffræðilínu og eðlisfræði-stærðfræðilínu. Hver braut og hver námslína inniheldur ákveðna áfanga sem nemandinn verður að taka og þeir eru í almennum kjarna og brautarkjarna en einnig í sérhæfingu brautar eftir að nemandi hefur valið hana. Síðan þarf nemandinn að taka ákveðinn fjölda eininga í sérhæfðu vali og frjálsu vali en þar skiptir meira máli að áfangarnir séu úr réttum námsgreinaflokki og á ákveðnu hæfniþrepi. Allir nemendur skólans þurfa að taka 6 einingar í íþróttum sem skiptast í 6 mismunandi áfanga. Almennt er gert ráð fyrir að nemandi ljúki námi í íþróttum á fyrstu tveimur námsárum sínum en ef sú staða kemur upp að nemandi getur ekki, einhverra hluta vegna, sinnt íþróttanámi sínu á þeim tíma sem skipulagt er þarf hann að taka þann áfanga síðar.
Umsókn um frávik frá skólanámskrá
Nemandi sem óskar eftir einhverjum frávikum frá skólanámskrá þarf að óska formlega eftir því að fá undanþágu frá námskránni. Undanþágur frá skólanámskrá eru aðeins veittar í undantekningartilvikum og það er rektor skólans sem veitir þær eftir að umsókn hefur verið tekin til umfjöllunar í skólaráði.
Meðferð vottorða vegna íþrótta
Umsóknum skal skilað til skrifstofu skólans og þær merktar Skólaráð - Umsókn um frávik frá námskrá
Síðast uppfært 12.4.2024